Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Tap lífeyrissjóðanna 479 milljarðar

03.02.2012 - 14:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Heildartap lífeyrissjóðanna árin 2008 til 2010 var 479.685 milljónir króna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu um fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og lagalegt umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahruns. Skýrslan er kynnt á blaðamannafundi sem nú stendur yfir á Grand hóteli.

Nefndin, sem skipuð var sumarið 2010 til að gera þessa úttekt, ályktar sem svo að endurskoða þurfi lífeyrissjóðalögin og kerfið í heild enda séu fjárfestingarheimildir óskýrar og ófullkomin ákvæði  um áhættu. Þá þurfi að endurskoða hlutverk endurskoðenda lífeyrissjóðanna þannig að Fjármálaeftirlitið skipi ytri endurskoðendur.  Það er skoðun nefndarinnar að eftirlit Fjármálaeftirlitsins hafi verið veikt og óvarlega hafi verið farið með gjaldmiðlavarnir. Þá hafi lífeyrissjóðirnir fjárfest of mikið í tengdum fyrirtækjum.

Skýrslan byggir á úttekt á 32 lífeyrissjóðum og er gerð fyrir sjóðfélaga sem eigendur sjóðanna. Viðtöl voru tekin við yfir 100 manns. Í skýrslunni segir að nauðsynlegt sé að allir aðilar skoði sinn hluta ábyrgðarinnar. Menn telji sig fórnarlömb aðstæðna en stjórnir sumra sjóða hafi verið óþægilega leiðitamar. Úttektin beri þess vitni.

Sýnt er beint frá fundinum hér á vefnum.