Talsverður eldur en niðurlögum ráðið hratt

10.07.2018 - 08:09
Mynd með færslu
 Mynd: Snorri Ingason
Greiðlega gekk að slökkva eld sem kom upp í kísilveri á Bakka við Húsavík í gærkvöld. Engin slys urðu á fólki. Tilkynnt var um brunann um klukkan átta. Talsverður eldur var þá í verinu.

Þótt slökkviliðsmenn hafi ráðið niðurlögum eldsins hratt var vakt á svæðinu í nótt, segir Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri hjá slökkviliði Norðurþings. Hann telur að tjónið hafi ekki verið mjög mikið, ekki hafi skemmst mikið af búnaði.

Hefði getað framkallað sprengingar

„Það var talsverður eldur þegar við komum að þessu en gekk reyndar bara mjög vel að slá á hann og ná tökum á ástandinu,“ segir Grímur. 

Eldurinn kviknaði í öðru ofnhúsi verksmiðjunnar og var svæðið rýmt af starfsfólki og rafmagn slegið út áður en slökkvilið gat hafist handa. „Við þurftum auðvitað að fara varlega með vatn í kringum þessa ofna. Ef við hefðum misst vatn ofan í þá hefði það getað framkallað sprengingar.“

Hjálpast að í stórum málum

Allt tiltækt slökkvilið var kallað út en tuttugu og þrír slökkviliðsmenn frá slökkviliði Norðurþings mættu á svæðið á þremur bílum. „Við fengum svo nokkra menn úr nágrannasveitarfélagi, við hjálpum hver öðrum þegar eitthvað svona stórt er í gangi.“

Grímur segir að slökkviliðið hafi ekki verið kallað út áður vegna elds í kísilverinu, enda hafi það bara verið í gangi í nokkra mánuði.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi