Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Talsmaður lágkolvetnakúrs í tannhvíttunardrama

Mynd með færslu
 Mynd: Evans/Pexels - Instagram/pexels

Talsmaður lágkolvetnakúrs í tannhvíttunardrama

04.06.2018 - 14:03

Höfundar

Ástralskur stjörnukokkur er í forsvari fyrir umdeilda heimildarmynd á Netflix sem fjallar um lágkolvetnafæði en þar er því meðal annars haldið fram að kúrinn geti læknað krabbamein. Áströlsku læknasamtökin saka Netflix um ábyrgðarleysi og dreifingu skaðlegs efnis.

Pete Evans er framleiðandi og sögumaður í kvikmyndinni The Magic Pill eða Töfrapillunni, sem kom út í fyrra. Kvikmyndin skoðar vinsælan lágkolvetnakúr sem snýst um að skera niður kolvetni og hækka hlutfall fitu í mataræði og fylgir eftir nokkrum þátttakendum sem eru að reyna að breyta matarvenjum sínum.

Meint áhrif á einhverfu og krabbamein

Einn viðmælenda í myndinni segir að mataræðið hafi smækkað krabbameinsæxli í brjósti hennar. Þar kemur einnig fram móðir sem fullyrðir að hegðun einhverfs sonar hennar hafi breyst og hann átt auðveldara með að mynda tengsl eftir að hann byrjaði á lágkolvetnafæði.

Stjörnukokkurinn Evans komst einnig í kastljós fjölmiðla árið 2015 þegar hann sendi frá sér matreiðslubók fyrir ungabörn þar sem mælt var með því að gefa ungum börnum beinasoð. Heather Yeatman sérfræðilæknir sagði í samtali við Women‘s Weekly að umrædd uppskrift að beinasoði innihéldi yfir tífaldan ráðlagðan dagskammt ungabarna af A-vítamíni og gæti jafnvel verið lífshættuleg.

Læknar uggandi yfir boðskapnum

Áströlsku læknasamtökin (AMA) fara þess á leit við Netflix að þau fjarlægi myndina úr safni sínu. Haft er eftir nýjum formanni samtakanna, Tony Bartone: „Fólk þarna úti er berskjaldað fyrir slíkum boðskap.“ Hann útskýrir í samtali við The Sydney Morning Herald að núgildandi tilmæli lækna um mataræði séu byggð á rannsóknum sem spanni áratugi aftur í tímann. Hann segist jafnframt bera virðingu fyrir getu og þekkingu stjörnukokksins í eldhúsinu en þar dragi hann líka línuna.

Þá útskýrir Bartone í samtali við Guardian að framsetningin á lágkolvetnafæði sem allsherjarlækningu geti haft mjög skaðleg áhrif á krabbameinssjúka og börn.

Evans brást ókvæða við og notaði Instagram-aðgang sinn til þess að saka Bartone um að „óttast að fólk í Ástralíu bæti heilsufar sitt,“ og spurði við sama tækifæri hvaða afleiðingar slíkar breytingar hefðu í för með sér fyrir læknabransann.

Heildræn nálgun og viðbót

Hann sagði jafnframt: „Þær upplýsingar sem koma fram í myndinni koma frá leiðandi sérfræðingum á sviði hjartalækninga og taugafræði og lækna sem hafa forvarnir efst á forgangslistanum.“ Hann segir málflutning sérfræðinga í myndinni vera viðbót við nútíma verkferla í læknisfræði, viðbót sem hann kallar heildræna nálgun. Á Youtube má síðan finna nokkurn fjölda myndbanda þar sem notendur hafa tekið myndina fyrir og telja sig hafa afsannað boðskap hennar.

Málið tók síðan nokkuð óvænta stefnu þegar þáttastjórnandi ástralska þáttarins The Sunday Project fjallaði um málið, hæddist að Evans og sagði hann notast við brúnkuefni og tannhvíttunarmeðferðir.

Tannhvíttunarjátningar

Á mánudag svaraði Evans fyrir sig, aftur á Instagram og Facebooksíðu sinni þar sem hann játaði að hafa gengist undir tannhvíttunarmeðferðir fyrir sjö árum síðan, en heilsárs-sólbrúnkan væri brimbrettaiðkun hans að þakka. Þá bætti hann við að hann ætlaði að deila nektarmynd af sér sama kvöld til þess að sýna fram á að hann væri sannur sólarunnandi með brúnkuför. Myndirnar hafa þó enn ekki sést. Hvers vegna litur tanna Evans eða staða sólbrúnku ætti hins vegar að rýra málflutning hans skal hér ósagt látið.

Talsmaður Netflix sagði í samtali við Buzzfeed News að fyrirtækið sinnti dagskrárgerð fyrir fjölbreyttan hóp áhorfenda og forsvarsmenn gerðu sér grein fyrir því að í sumum tilfellum gæti framleiðslan verið umdeild.

Tengdar fréttir

Neytendamál

Lágkolvetnakúrar hagstæðir kúabændum

Mannlíf

Góð og slæm kolvetni

Neytendamál

Lágkolvetnafæði engin allsherjarlausn

Erlent

Svíar viðurkenna lágkolvetnalífstílinn