Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Talinn hafa látist af slysförum

10.04.2015 - 16:14
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Flest bendir til þess að maður sem fannst látinn á hótelherbergi á Hótel Örk, laugardagskvöldið 4. apríl, hafi látist af slysförum. Rannsókn lögreglunnar á Selfossi, sem nýtur liðsinnis tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, stendur enn yfir.

Maðurinn, sem var tæplega sextugur Íslendingur, fannst á hótelherberginu eftir að samferðafólk hans var farið að undrast um hann. Hótelstarfsmaður var fenginn til að opna herbergi hans og var hann þá látinn þar inni. Samkvæmt heimildum fréttastofu kom í ljós við krufningu á miðvikudag að maðurinn var með innvortis áverka. Talið er að hann hafi látist af völdum þeirra. Lögreglan hefur meðal annars kannað hvort áverkarnir gætu verið að völdum húsgagna í herbergi mannsins. Eins hefur lögreglan farið yfir myndskeið úr öryggismyndavélum. Samkvæmt heimildum fréttastofu bendir allt til þess að svo stöddu að maðurinn hafi dottið í herberginu og við það hlotið innvortis meiðsl á síðu. Ekki er hægt að greina frá nafni mannsins að svo stöddu.