Taldi sig örugga í skjóli varnargarða

15.01.2020 - 23:02
Mynd: RÚV / RÚV
Kona, sem býr í næsta húsi við það sem snjóflóð ruddi niður á Flateyri í gærkvöld, segist endurupplifa þegar snjóflóð féll þar fyrir tuttugu og fimm árum. Hún taldi sig örugga í skjóli varnargarða.

Snjóflóðin tvö, sem féllu á Flateyri í gærkvöld, ollu miklu tjóni. Fyrra flóðið eyðilagði smábátahöfnina og sökkti öllum bátunum þar nema einum. Bátar lágu eins og hráviði og olíubrák flaut á milli klakahröngla í sjónum. Seinna flóðið fór yfir varnargarð og á íbúðarhús efst í bænum. Unglingsstúlka grófst inni í húsinu en var bjargað eftir um hálftíma leit. Steinunn Guðný Einarsdóttir býr í næsta húsi við.

„Ég sé úti um gluggann að bíllinn okkar er á hvolfi við hliðina á húsinu. Þá áttaði ég mig á hvað er að gerast, ég var samt ekki að kveikja því þetta var svo óraunverulegt. Að við værum fyrir innan garðanna og að bílarnir hefðu færst þarna til,“ segir Steinunn Guðný Einarsdóttir.

Steinunn segir snjóflóðin kalla fram minningar um flóðið sem féll á Flateyri árið 1995, þar sem tuttugu létust.

„Maður er í sjokki, aftur, yfir því hvað þetta er kraftmikið. Að þetta geti komið yfir og nálgast mann svona. Það er mesta sjokkið, varnarleysið. Það er það sem ég hef upplifað í dag. Ég er mjög meyr eftir daginn og er að melta þetta. Ég er ekki búin að ná upp í að þetta sé að gerast, aftur. Auðvitað er þetta öðruvísi og allt það, en þetta er samt rosalega líkt“ segir Steinunn.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðrún Pálsdóttir.

Vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér

Guðrún Pálsdóttir segir algjöra óvissu um lífsviðurværi fjölskyldunnar eftir að hafa misst bát í snjóflóðinni.

„Þetta hefur þær afleiðingar að við munum öll missa vinnuna. Fólkið sem er að vinna hjá okkur, tveir á sjónum og þrír í landi. Ég sé svo um rekstur og bókhald og maðurinn minn. Þetta kippir algjörlega undan okkur fótunum og líf okkar hangir nú bara í óvissu. Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér.

Guðrún segist ekki vita hvort hún ætli að búa áfram á Flateyri.

„Ég bara veit það ekki, ég verð að viðurkenna að þetta er það stórt skarð sem er höggvið í mína fjölskyldu. Þetta var rosalega fallegur bátur sem var búinn að ganga vel, draumabáturinn okkar. En hann er farinn,“ segir Guðrún Pálsdóttir.