Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tálbeitur frá Kína

10.05.2019 - 08:37
Lundabyggð er að verða til í Hrísey. Lundarnir þar eru þó heldur óvenjulegir því að þeir koma alla leið frá Kína, eru tvö hundruð talsins og úr plasti.

Hugmyndin kviknaði fyrir tveimur árum. Hún er að búa til lundabyggð úr tálbeitum í von um að lokka lunda að eynni í von um að þeir setjist þar að. Að verkefninu standa hvalaskoðunarfyrirtæki á Hauganesi og Dalvík í samstarfi við Hríseyinga. Verkefnið er að hluta til styrkt af Brothættum byggðum. 

Yfir 40 varpfuglar í Hrísey

Bjarni Ómar Guðmundsson, sem rekur ferðaþjónustu í Hrísey, tekur þátt í verkefninu. Hann segir að það séu yfir 40 tegundir varpfugla í Hrísey en þar vanti lunda. Lundinn flýgur um Eyjafjörðinn og leitar sér að æti en hefur hingað til ekki sest að í Hrísey eins og á flestum eyjum í kring. Hann vonast til að það takist að fjölga fuglategundum í eynni.

Tálbeitur frá Kína

Fyrir rúmu ári var sendur uppstoppaður lundi til Kína og fyrir stuttu kom sending til baka. Í henni voru 200 lundar úr plasti, eftirmyndir af þeim uppstoppaða, hugsaðir sem tálbeitur. Búnar verða til þrjár lundabyggðir í eyjunni en í byrjun verða reknir niður um 70 fuglar og vonast er til að það beri einhvern árangur. 

Lyftistöng fyrir ferðamennsku

Aðalsteinn Svan Hjelm, markaðsstjóri Hvalaskoðunar á Hauganesi, segir að lundinn sé vinsæll fugl og það komi glöggt fram í hvalaskoðunarferðum þar sem mikið er spurt um lundann. Ef verkefnið tekst vel til og úr verður lundabyggð í Hrísey gæti það orðið mikil lyftistöng fyrir ferðamennsku. Aðalsteinn segir að fyrst og fremst vonist þeir til að styrkja og stækka stofninn en það sé plús ef hvalaskoðunarfyrirtæki gætu þá farið að bjóða lundaskoðun samhliða hvalaskoðun.

Bjarni Ómar tekur undir þetta og segir að takist verkefnið vel verði það líka gott fyrir Hríseyinga með því að fleiri ferðamenn myndu koma til eyjarinnar. Lundabyggðin yrði þá partur af gönguleið í Hrísey.

Heyri köll frá landi

Þetta er langtímaverkefni og er ekki búist við árangri fyrr en í fyrsta lagi eftir þrjú ár. Það vekur þó bjartsýni að svipuð verkefni hafa tekist vel bæði í Noregi og Bandaríkjunum. En það eru ekki einungis tálbeiturnar sem eiga að laða lundann að því næsta skref er að setja upp einhvers konar hljóðkerfi. Í verkefnum erlendis hefur gefist vel að spila kall lundans þannig að lundar á sjó heyri köll frá landi. Þá verða líka gerðar nokkrar lundaholur en holur lundans eru merkileg smíði og yfirleitt með sérherbergjum sem hugsuð eru sem salerni.