Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Takmörkun verðtryggingar nú og afnám síðar

23.01.2014 - 17:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Tillögur sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar gera ráð fyrir talsverðum takmörkunum á verðtryggingu um áramót og að árið 2016 hefjist umfangsmikil vinna með það að markmiði að afnema verðtrygginguna að fullu. Þetta sagði Ingibjörg Ingvadóttir, formaður hópsins, þegar tillögurnar voru kynntar.

Tillögur sérfræðingahópsins um verðtryggingu fela í sér mestu breytingar frá því Ólafslögin voru sett, sagði Ingibjörg við upphaf fundarins þegar niðurstöður hópsins voru kynntar. Hún sagði verðtryggingu ekkert náttúrulögmál og að margir flokkar hefðu haft á stefnuskránni að draga úr vægi hennar. Ingibjörg sagði að fullt afnám verðtryggingar væri af áður óþekktri stærðargráðu, þetta væri kerfisbreyting sem snerti marga fleti lögfræði og fjármála. Því þótti mikilvægt að meta áhrifin á neytendur, lánveitendur, fasteignamarkað og hagkerfið í heild. Nefndin leggur til breytingar á verðtryggingu en ekki fullt afnám.

Fjórar helstu tillögur
Sérfræðingahópurinn leggur til að verðtryggð jafngreiðslulán til lengri tíma en 25 ára verði afnumin, það eru svokölluð Íslandslán. Þau segja nefndarmenn að séu versta birtingarmynd verðtryggingarinnar. Greiðslubyrðin sé lág í upphafi en niðurgreiðsla höfuðstóls lág. Slíkt leiði til freistnivanda vegna lágrar greiðslubyrði.

Lágmarkslánstími verðtryggðra neytendalána verður hækkaður úr fimm árum í allt að tíu ár, gangi tillögurnar eftir. Nefndin vill takmarka veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána, þannig að ekki verði leyft að lánsféð verði notað til annars en fjármögnunar viðkomandi húsnæðis. Þá verði sett þak á veðsetningarhlutfall verðtryggðra íbúðalána.

Loks leggur nefndin til að skattalegir hvatar verði nýttir til að beina fólki að óverðtryggðum lánum í stað verðtryggðra. 

Ekki það sem hópurinn átti að gera
„Hlutverk hópsins var afnám verðtryggingar, ekki hvort heldur hvernig," sagði Vilhjálmur Birgisson sem skilaði séráliti. Hann segir tillögur meirihlutans ekki kveða á um afnám verðtryggingar. Hann segir komna upp þá ögurstund að íslenskt fjármálakerfi deili áhættunni af fjármálakerfinu með lántakendum. Vilhjálmur er ósáttur við að meirihluti starfshópsins hafi hafnað tillögum um vaxtaþak á óverðtryggð neytendalán, einnig að ekki sé tekið til eldri lána sem þegar hafa verið tekin og veitt.

[email protected]