Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Takmarkar heimildir til að neyta rafsígarettna

13.02.2017 - 11:37
epa03610679 A person smokes an electronic cigarette in Nice, France, 05 March 2013. Media reports on 05 March state that French Minister for Social Affairs and Health Marisol Touraine is to launch an investigation into the side effects of the flavours
 Mynd: EPA
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur lagt fram til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á tóbaksvarnarlögum. Þar er lagt til að sambærilegar reglur gildi um neyslu rafsígarettna og gilda um neyslu tóbaks. Mun það fyrst og fremst takmarka heimildir til að neyta rafsígarettna. Þá verður Neytendastofu falið eftirlit með merkingum og öðru er tengist öryggi rafsígarettna.

Með frumvarpinu verður notkun rafsígarettna takmörkuð í almannarými enda skuli samkvæmt markmiðum laganna virða rétt hvers manns til að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað reyk eða gufu. Óheimilt verður að neyta rafsígarettna í þjónusturýmum stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram. Þá verður einnig óheimilt að neyta rafsígarettna í skólum, á opinberum samkomum, á heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum.

Sömu aldurstakmörk gilda þá um kaup á rafsígarettum og áfyllingarílátum og gilda um tóbak þar sem aldurstakmarkið er 18 ár. Þá er ekki kveðið á um takmark um hversu mikið magn megi selja í einu. Áfyllingarílátin mega þó ekki innihalda meira en 10 ml af vökva og má styrkleiki nikótíns í vökvanum ekki vera meiri en 20 mg í hverjum ml.

Tilkynna skuli Neytendastofu um nýja vöru á markað

Fram kemur í frumvarpinu að framleiðendur og innflytjendur rafsígarettna og áfyllingaríláta, sem þeir hyggjast setja á markað hér á landi, skuli senda Neytendastofu tilkynningu um það sex mánuðum áður en setning á markað er fyrirhuguð. Þá skuli einnig tilkynna til Neytendastofu fyrir hverja umtalsverða breytingu á vöru. 

Velferðarráðuneytið hefur óskað eftir því að umsagnir um framvarpið verði sendar ráðuneytinu í tölvupósti. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV