Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Takmarkað aðgengi fyrir fatlaða í Sjóböðunum

06.06.2019 - 15:55
Mynd með færslu
 Mynd: geosea.is
Fjölmargar athugasemdir voru gerðar um aðgengi fyrir fatlaða í Sjóböðunum á Húsavík strax við opnun þeirra. Byggingafulltrúi Norðurþings hefur nú gert kröfur um lagfæringar. Formaður Sjálfbjargar segir það miður að í nýju mannvirki í ferðaþjónustu sé því frestað að útbúa almennilegt aðgengi fyrir fatlaða gesti.

Sjóböðin á Húsavíkurhöfða voru opnuð í ágúst í fyrra og þá strax hóf Sjálfsbjörg að gera athugasemdir við ýmislegt sem þar þótti ábótavant varðandi aðgengi fatlaðs fólks. 

Sáu strax við opnun að aðgengið væri ekki í lagi

„Í raun og veru fljótlega eftir að Sjóböðin eru opnuð þá sjáum við það að aðstaðan, sérstaklega til aðkomast ofaní, er ekki til staðar. Sem er náttúrulega svona grundvallaratriði," segir Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfsbjargar. Athugasemdir félagsins snúa meðal annars að almennu aðgengi að húsi Sjóbaðanna, búningsaðstöðu, sturtum, aðgengi að böðunum og ofan í þau. Þá vanti ókyngreindan skiptiklefa.

Sveitarfélagið hafi brugðist við flestum athugasemdum 

Fjórða júní barst fréf frá skipulags- og byggingafulltrúa Norðuþings þar sem fram kemur að opnun Sjóbaðanna hafi verið heimiluð þrátt fyrir að nokkuð hafi vantað upp á að mannvirkin væru tilbúin samkvæmt samþykktum teikningum. Síðan hafi verið unnið talsvert að endurbótum. „Núna er sveitarfélagið semsagt búið að svara því til að það geri kröfu á að Sjóböðin lagi flest, en ekki allt," segir Bergur Þorri. Framkvæmdastjóri Sjóbaðanna segir í viðtali við Fréttablaðið að lagfæringar séu hafnar.

Segir að verið sé að vísa hreyfihömluðum frá

Bergur segir of algengt að sveitarfélög veiti fresti til að ljúka nauðsynlegum framkvæmdum sem snúi að aðgengi fyrir fatlaða, áður en byggingar eru opnaðar. Og síðan eigi að redda hlutunum eftir á. „Það er hugsunarháttur sem ég skil ekki og bara fæ ekki skilið. Vegna þess að þá ertu í raun og veru að vísa fólki í þennan tíma frá og segja þú verður að koma seinna, þá verður þetta tilbúið."