Takmarka afgreiðslu lyfja vegna lyfjahamsturs

Úr umfjöllun Kveiks um lyfjaskil
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sett reglugerð sem felur í sér takmarkanir á afhendingu lyfja. Ástæðan er sú að nokkuð hefur borið á því að undanförnu að fólk hafi keypt tiltekin lausasölulyf í miklum mæli, eða að fólk með fjölnota lyfseðla hafi leyst út margar afgreiðslur samtímis eða með skömmu millibili. Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að mikilvægt sé að fólk hamstri ekki lyf. Slík háttsemi geti skapað lyfjaskort og stefnt lífi fólks í hættu.

„Til að sporna við þessu hefur heilbrigðisráðherra sett reglugerð sem felur í sér takmarkanir á afhendingu lyfja,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Heilbrigðisráðuneytið hefur sent bæði læknum og lyfjafræðingum bréf þar sem reglugerðarbreytingin er kynnt og óskað er eftir samvinnu um framkvæmdina. Með breytingunni eru lögð til ákvæði til bráðabirgða sem loka á að fleiri en ein lyfjaávísun á sama lyf og styrkleika sé gild hverju sinni í lyfjaávísunargáttinni. „Jafnframt er lagt til að Lyfjastofnun geti takmarkað afgreiðslu lyfja þegar sérstakar ástæður sem varða almannaheill og lýðheilsu mæla með því,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að lyfjabirgðir hafi verið auknar í landinu vegna kórónaveirufalaldursins. Það sé mat heilbrigðisyfirvalda að birgðir séu nægar, sé þeim rétt skipt.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi