Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Taka undir með sveitarstjórn Langanesbyggðar

Mynd með færslu
 Mynd: Karen Rut Konráðsdóttir - RÚV
Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga tekur undir ályktun sveitarstjórnar Langanesbyggðar síðan í gær um að kjósendum í dreifðari byggðum sé mismunað með þeirri ákvörðun yfirvalda að eingöngu sé hægt að kjósa utan kjörfundar á skrifstofum sýslumanna en ekki á skrifstofum sveitarfélaga.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga telur óásættanlegt að skortur á þjónustu af hálfu sýslumanna verði til þess að draga úr kjörsókn í komandi sveitarstjórnarkosningum. „Gerir stjórnin þá kröfu til dómsmálaráðuneytisins og sýslumannsembætta að þau tryggi að skipulag utankjörfundaratkvæðagreiðslu henti íbúum í hverjum landshluta, án þess að þeir þurfi að ferðast um langan veg,“ segir á vef sambandsins. 

Stjórnin fjallaði í dag um ályktun sveitarstjórnar Langanesbyggðar. Auk þess að taka undir hana vill stjórnin að viðræður hefjist sem fyrst á milli sambandsins, dómsmálaráðuneytis, forsætisráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og Þjóðskrár Íslands um nauðsynlegar úrbætur á kosningalöggjöf og framkvæmd kosninga. 

Samþykkt stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga er eftirfarandi:

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga gerir þá kröfu til dómsmálaráðuneytisins og sýslumannsembætta að þau tryggi að skipulag utankjörfundaratkvæðagreiðslu henti íbúum í hverjum landshluta án þess að þeir þurfi að ferðast um langan veg. Jafnframt þarf að tryggja að sjómenn eigi kost á því að greiða atkvæði utan kjörfundar.  Óásættanlegt er að skortur á þjónustu af hálfu sýslumanna verði til þess að draga úr kjörsókn.  

Stjórn sambandsins telur mikilvægt að hafnar verði sem fyrst viðræður á milli sambandsins, dómsmálaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Þjóðskrár Íslands um nauðsynlegar úrbætur á kosningalöggjöf og framkvæmd kosninga. Í þeim viðræðum verði sérstaklega horft til þess á hvern hátt sé hægt að auka kosningaþátttöku.