Taka ákvörðun um lokun Reynisfjöru á morgun

22.08.2019 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristín Sigurðardóttir
Lögreglan á Suðurlandi setti upp nýja borða við Reynisfjöru í morgun sem girti af þann hluta fjörunnar þar sem stór skriða féll úr Reynisfjalli á þriðjudag.

Sigurður Sigurbjörnsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, sagði í samtali við fréttastofu að hann ætli að halda lokuninni áfram þar til að ákvörðun um framhaldið verður tekin á fundi með landeigendum og Vegagerðinni í fyrramálið. Að sögn Sigurðar hafa ekki frekari skriður fallið.

Sigurður segir ferðamenn virða lokunina, þetta sé tvöfaldur borði sem nær eins langt niður í fjöru og hægt er. Það hafi þó gerst í gær að borðinn hafi verið farinn að hluta og þá hafi verið komnir um þrjátíu til fjörutíu ferðamenn sem reka þurfti burt. Sigurður segist ekki vita til þess að fleiri hafi farið í gegn. 

Skriðan sem féll á þriðjudag var um hundrað metrar á breidd og hljóp um fimmtíu metra frá rótum fjallsins út í sjó. Stærstu steinarnir í urðinni voru um þrír metrar í þvermál. Meðalþykkt skriðunnar var um fimm metrar og áætlað rúmmál hennar um 25 þúsund rúmmetrar.

Á mánudag slösuðust karlmaður og barn þegar skrifa féll í fjöruna. Þá lokaði lögreglan á Suðurlandi austasta hluta fjörunnar. Sá hluti fjörunnar hefur nú verið lokaður alla vikuna og stendur til að halda fund um framhaldið á morgun með landeigendum og fulltrúum Vegagerðarinnar. 

helenars's picture
Helena Rós Sturludóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi