Taka afstöðu til mála eftir sinni sannfæringu

Andrés og Rósa mæta til þingflokksfundarins í dag. - Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, þingmenn Vinstri grænna sem greiddu atkvæði gegn stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á flokksráðsfundi í gær, segjast bæði styðja ráðherraval flokksins og þau ætli ekki að segja sig úr þingflokknum. Þau segjast munu taka afstöðu til mála eftir sannfæringu sinni.

„Ég styð ráðherraval Vinstrihreyfingarinnar græns framboð sem Katrín Jakobsdóttir lagði hér á borð fyrir okkur – styð það heils hugar,“ segir Rósa Björk.

Styðurðu ríkisstjórnina?
Mín afstaða hefur komið fram. Í dag skulum við fagna því að Katrín Jakobsdóttir sé að verða forsætisráðherra Íslands og ég óska henni alls velfarnaðar í þeirri vegferð.“

En kemurðu til með að styðja ríkisstjórnina?
„Ég áskil mér rétt til þess að taka afstöðu til mála eftir minni sannfæringu en í dag ætla ég að fagna því að Katrín Jakobsdóttir sé orðin forsætisráðherra.“

Ertu þá að segja að þú munir bara styðja einstaka mál ríkisstjórnarinnar en ekki öll?
„Það kemur bara í ljós,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir.

Styður það sem stjórnin gerir þar til annað kemur í ljós

Andrés Ingi talar á svipuðum nótum.

„Ég virði niðurstöðu flokksráðsfundar frá í gær og stend að baki ráðherravali Vinstri grænna og hlakka til að sjá Katrínu Jakobsdóttur taka við sem forsætisráðherra.“

En styðurðu ríkisstjórn Katrínar?
„Ég ætla bara að leyfa henni verða til og með því sem kemur frá henni þangað til annað kemur í ljós og reikna ekki með því að það verði neitt vandamál vitandi að Katrín veit sínu viti.“

Ætlar þú þá að skoða hvert mál fyrir sig og taka afstöðu í hvert og eitt skipti eða getur forsætisráðherra reitt sig á þig?
„Þingmenn eiga náttúrulega að skoða hvert mál fyrir sig, alltaf, og hugsa sig um og bera upp við sannfæringu sína í hvert sinn, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu,“ segir Andrés Ingi Jónsson.

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi