Tafir á innflutningi lyfja en skortur ekki yfirvofandi

18.03.2020 - 17:26
Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - Rúv
„Það er ákveðin töf í kerfunum sem er ekkert óeðlilegt þegar lönd eru hreinlega búin að loka,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar. Eitthvað hefur verið um tafir á innflutningi lyfja hingað til lands, en Rúna segir að þær tafir séu ekki alvarlegar og að birgðastaðan í landinu sé mjög góð. Hún hafi þó vissulega áhyggjur af stöðunni sem upp er komin vegna COVID-19 faraldursins.

Ekki hamstra

Flest lyf sem flutt eru hingað til lands koma frá Norðurlöndunum, að sögn Rúnu. Þar eru þau annað hvort framleidd, eða þá að þau koma þaðan í gegnum heildsala sem flytur þau inn annars staðar frá. Rúna segir að forstjórar lyfjastofnana á Norðurlöndunum séu í stöðugu símasambandi þessa dagana, og að náið sé fylgst með gangi mála.

„Það var farið í átak við að auka birgðir af lyfjum, þannig að heildsölurnar birgðu sig vel upp áður en faraldurinn skall á,“ segir Rúna. Birgðastaðan sé því mjög góð.

„En við höfum verið að biðla til einstaklinga að hamstra ekki lyf, því það þarf ekki mikið til. Landlæknir kom líka inn á þetta í gær, og beindi því til lækna og apóteka að stuðla ekki að hömstrun með neinum hætti.“

Rúna segir að enginn lyfjaskortur sé yfirvofandi. Þó sé vissulega ástæða til þess að vera á varðbergi.

„Við höfum eðlilega áhyggjur af stöðunni, en það er ekkert krítískt eins og er,“ segir Rúna.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi