Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tæpur meirihluti kalli á meiri samvinnu

24.01.2017 - 16:09
Mynd með færslu
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra. Hann segir sveitarfélögin á heildina litið treysta sér til að ganga á eigið fé sitt að einum þriðja. Mynd: RÚV
Það hve tæpur meirihluti ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar er, kallar á verulega aukinn vilja hans til samstarfs á Alþingi. Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og fráfarandi forsætisráðherra. Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, segir ósamkomulag um nefndaskipan erfiðan upptakt fyrir þingstörfin.

Alþingi kom saman í dag til fyrsta fundar eftir að ný ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók við völdum. Unnur Brá Konráðsdóttir var kosin forseti Alþingis og Steingrímur J. Sigfússon var kosinn fyrsti varaforseti. Unnur Brá er fjórða konan til þess að gegna þessu embætti og hún er jafnframt yngsti þingmaðurinn sem kjörinn er forseti Alþingis síðan Ásgeir Ásgeirsson var kjörinn forseti sameinaðs þings í janúar 1930.

Eins og fram hefur komið náðist ekki samkomulag milli þingflokka um nefndaskipan og verða formenn og varaformenn nefndanna kosnir á fyrstu fundum nefndanna. 

„Fyrir því eru ýmsar ástæður og við sem sátum við það borð getum hugsanlega verið ósammála um einstök atriði í því sambandi en þetta er niðurstaðan,“ segir Birgir Ármannsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks.

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, sagði niðurstöðuna vonbrigði. „Þetta er erfiður upptaktur virðulegur forseti að störfum hér og það verður krefjandi fyrir okkur öll sem eigum sæti hér á Alþingi að byggja traust og gott samstarf á þessum grunni.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði niðurstöðuna vonbrigði og óheppilega. „Ég held að sú staða sem að uppi er, með það tæpan meirihluta sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa, kalli á verulega aukinn vilja af þeirra hálfu til samstarfs hérna í þinginu.“

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV