Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tæp 5% smita á heimsvísu eru í New York-ríki

22.03.2020 - 17:22
epa08310619 Shoppers queue up outside of the Whole Foods Market at Columbus Circle in New York, New York, USA, 20 March 2020. New York Governor Andrew Cuomo issued on 20 March a statewide shut down of all non-essential businesses and a ban on all non-solitary outside activities that is set begin on Sunday night in effort to stop the spread of the coronavirus.  EPA-EFE/Peter Foley
Fólk í biðröð fyrir utan matvöruverlsun í New York í gær.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Tæp fimm prósent staðfestra COVID-19 smita á heimsvísu eru í New York-ríki í Bandaríkjunum. Þar eru greind smit 15.168 talsins. Á einum sólarhring hafa 4.812 smit verið greind. New York Times greinir frá því að þessa miklu aukningu megi rekja til þess að útbreiðslan hafi aukist mjög en að einnig séu fleiri sem hafi farið í skimun.

114 hafa látist úr sjúkdómnum í ríkinu. New York Times hefur eftir Andrew M. Cuomo, ríkisstjóra, að um helmingur þeirra sem hafi verið greindir séu á aldrinum 18 til 49 ára. Yfir helmingur smitanna er í New York borg þar sem þúsund manns eru á spítala vegna sjúkdómsins og 60 hafa látist.

Ríkisstjórinn sagði í þættinum Meet the Press á NBC í morgun að hann óttist að staðan í apríl verði verri en í mars með tilliti til útbreiðslu veirunnar. Hann sendi út neyðarkall í dag. „Ef það eru framleiddar öndunarvélar einhvers staðar í landinu þá þurfum við að fá þær til New York. Ekki eftir nokkrar vikur eða mánuði heldur á næstu tíu dögum,“ sagði ríkisstjórinn í þættinum.

Greind smit á heimsvísu eru 318,662 samkvæmt gagnabanka John Hopkins-háskólans. Heildarfjöldi smita í Bandaríkjunum er 27.004.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir