Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tækifæri í víðfeðmasta sveitarfélagi landsins

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Oddvitar Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps segja fjölda tækifæra felast í sameiningu sveitarfélaganna. Það verður víðfeðmasta sveitarfélag landsins. Íbúar fá að kjósa um sameiningu að loknum viðræðum.

„Þetta verður landmesta sveitarfélag landsins, tólf þúsund ferkílómetrar, rétt um 12 prósent af Íslandi. Það má segja að víðáttan einkenni það og ekki margir íbúar þannig að þar liggja mikil tækifæri,“ segir Arnór Benónýsson, oddviti Þingeyjarsveitar.

Sveitarfélögin tvö hafa skipað samstarfsnefnd sem á að kanna ávinning af sameiningu. Samtals búa tæplega 15 hundruð íbúar í sveitarfélögunum tveimur.

Það hefur áður verið gerð tilraun til þess að sameina þessi sveitarfélög. Árið 2007 stóð til að sameina Aðaldælahrepp, Þingeyjarhrepp og Skútustaðahrepp, en íbúar þess síðastnefnda felldu tillöguna. Hin sveitarfélögin tvö sameinuðust undir nafni Þingeyjarsveitar.

Arnór segir kominn tíma til þess að reyna aftur. „Það er langt síðan 2007 og það hefur orðið gríðarleg breyting á samfélögunum síðan, og ekki síst Mývatnssveit.“

Oddvitar sveitarfélaganna tveggja segja þau standa vel fjárhagslega. Það setji viðræðurnar nú í áhugavert samhengi, enda verði hægt að fjalla betur um aðra hluti en fjármál og rekstur í sameiningarviðræðum.

Stefnt að fækkun sveitarfélaga

Sveitarfélögum á Íslandi hefur fækkað mikið á síðustu áratugum og þau eru nú 72. Undanfarin ár hefur sveitarfélögum þó gengið illa að sameinast en í haust á að kjósa um sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi en lítið er að frétta af öðrum sameingarviðræðum, samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Stefna stjórnvalda á Íslandi er að hækka lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélögum og eftir sjö ár eiga ekki færri en þúsund manns að búa í sama sveitarfélagi. 

Helgi Héðinsson, oddviti í Skútustaðahreppi, segir gott að vera á undan straumnum. „Það er ofboðslega góður staður að fara í verkefni af eigin frumkvæði og ekki í neinni neyð, heldur að geta gefið sér góðan tíma til að horfa til framtíðar.“

Hann segir að í þessum viðræðum þurfi sveitarfélögin að velta upp spurningum eins og: „[H]vernig samfélag viljum við vera og hvernig getum við þróast og hvernig fáum við nýtt og öflugt fólk inn á svæðið og hvernig getum við aukið lífsgæði og hamingju þeirra sem fyrir eru,“ segir Helgi Héðinsson.