Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sýslumaður hefur ekki séð yfirlýsingu ÖSE

19.10.2017 - 10:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, segist ekki hafa séð yfirlýsingu fjölmiðlafrelsisfulltrúa Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, þar sem lögbann á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media er gagnrýnt. Hann geti því ekki tjáð sig um yfirlýsinguna. „Einhvern veginn hefur ÖSE yf­ir­sést að senda sýslu­manni þetta plagg,“ sagði hann. „Ég veit ekk­ert hvað stend­ur í þessu skjali.“

Þetta sagði Þórólfur á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun. Í yfirlýsingu fjölmiðlafrelsisfulltrúa ÖSE í gær, sem birt var á vef stofnunarinnar og fjallað um í fjölmiðlum, voru yfirvöld meðal annars hvött til að aflétta lögbanninu og tryggja að ekki yrðu frekari skorður settar við umfjöllun fjölmiðla um íslenska ráðamenn.

Pírati lýsir undrun sinni

Jón Þór Ólafsson, fulltrúi Pírata í nefndinni og einn þeirra sem fóru fram á fundinn, spurði Þórólf hvort hann hefði kynnt sér viðurkennda staðla um fjölmiðlafrelsi sem vísað hefði verið til í yfirlýsingu ÖSE, hvort málsmeðferð sýslumannsembættisins hefði virt þessa staðla og hvernig sýslumaður hygðist bregðast við yfirlýsingunni.

Þórólfur svaraði því til, sem áður segir, að hann hefði ekki séð yfirlýsinguna en að hann bæri fullt traust til lögfræðinga embættisins. Þuríður Árnadóttir, staðgengill sýslumanns, sagði að farið hefði verið eftir þeim lagaákvæðum sem gilda um setningu lögbanns.

Jón Þór lýsti þá undrun sinni á því að sýslumaður þekkti ekki til þeirra viðmiða sem fulltrúi ÖSE hefði tilgreint og var ósáttur við svör sýslumanns. Hann benti meðal annars á að yfirlýsing ÖSE hefði verið opinber. Jón Steindór Valdimarsson, formaður nefndarinnar, tók þá orðið af Jóni Þór og sagði nefndina ekki geta neytt menn til svara.

Lögbann á fjölmiðla eins og öll önnur lögbönn

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, nefndarmaður Pírata, spurði hvort sýslumaður hefði vegið og metið hvort gera ætti ríkari kröfur við ákvörðun um lögbann á fjölmiðla, sem beindist að tjáningarfrelsi, en við aðrar ákvarðanir um lögbann.

Brynjar Kvaran, yfirmaður fullnustusviðs hjá sýslumanni, sagði alla jafna mikla pressu á að lögbannsbeiðnir væru afgreiddar fljótt og vel og sagði að ekkert öðruvísi væri farið með lögbannsbeiðnir sem beindust gegn fjölmiðlum en öðrum aðrar slíkar beiðnir. „Þetta má er ekkert sérstakt að því leytinu til,“ sagði Brynjar.

Þórhildur Sunna spurði enn fremur hvort ekkert tillit væri tekið til aðstæðna, svo sem að fjölmiðlar væru að fjalla um mál í aðdraganda kosninga. Brynjar svaraði því til að ekki væri litið til þess hvort kosningabarátta væri í gangi í þjóðfélaginu. Heimildir væru í lögum til að takmarka tjáningarfrelsi og það væri dómstóla að kveða upp úr ef lögin stæðust ekki stjórnarskrána.

14 beiðnir af 54 samþykktar síðan 2015

Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í nefndinni, spurði Þórólf um traust hans til starfsmanna sinna og hvort sýslumaður gæti endurupptekið mál ef hann kæmist á snoðir um að forsendur ákvarðana hefðu verið rangar.

Þórólfur sagðist bera fullt traust til starfsmanna embættisins og að sumir þeirra hefðu orðið fyrir ómaklegri gagnrýni vegna málsins. Þá væri ljóst að starfsmenn þyrftu ekki að bera hverja beiðni undir sýslumann sjálfan.

Í máli Brynjars Kvaran kom fram að frá því að embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hefði tekið til starfa 2015 hefðu 14 lögbannsbeiðnir af 54 verið samþykktar.

Engar tvær beiðnir eru nákvæmlega eins

Hildur Sverrisdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í nefndinni, vísaði til ákvörðunar dómstóla í lögbannsmáli Jónínu Benediktsdóttur gegn Fréttablaðinu fyrir rúmum áratug þegar dómari dæmdi fjölmiðlinum í vil. Niðurstaðan var að umfjöllunin ætti erindi við almenning og væri því heimil þótt unnið væri upp úr gögnum frá Jónínu sem hún hafði ekki leyft umfjöllun um. Sýslumaður hafði samþykkt lögbann en dómstólar dæmdu fjölmiðlinum í vil.

Þórólfur sagði að embættið gæti ekki tekið afstöðu til matskenndra atriða – fara yrði eftir mjög skýrum leikreglum sem giltu. Undir þetta tók Brynjar Kvaran, sem sagði að lögin gildu alltaf og um alla, ekki um suma og stundum. „Ef það koma dómar í fordæmum sem eru alveg eins þá tökum við tillit til þess,“ sagði Brynjar en tók um leið fram að hann myndi ekki eftir tveimur lögbannsbeiðnum sem væru alveg eins.

Umfang bannsins minna en lagt var upp með

Lilja Alfreðsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokks, sagði að lögbannið kæmi illa við alla aðila, sérstaklega í miðri kosningabaráttunni. Hún spurði hvort gerðarþoli hefði getað óskað eftir því að umfang lögbannsins yrði takmarkaðra en raunin varð.

Brynjar Kvaran sagði að lögbannið sem lagt var á hafi verið mun takmarkaðra en beiðnin sem upphaflega var lögð fram. Hluta beiðninnar hefði verið hafnað og hluta hefði Glitnir dregið til baka. Þar vísaði hann til þess að Glitnir dró til baka beiðni um að Stundin yrði að fjarlægja þegar birtar umfjallanir af vef sínum og að sýslumannsembættið hafnaði því að Stundin yrði að afhenda gögn sín.

Fundur nefndarinnar stendur enn. Hægt er að horfa á beina útsendingu af honum með því að smella á þennan hlekk.