Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sýrlenska fjölskyldan fær að vera lengur

05.11.2015 - 13:54
Wael Aliyadah og Feryal Aldahash með dætrum sínum. Skjáskot úr Kastljósi.
 Mynd: RÚV
Sýrlenska fjölskyldan sem á að senda til Grikklands samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar hefur fengið leyfi til að dvelja hér í tvo til þrjá mánuði til viðbótar eða á meðan kærunefnd útlendingamála tekur endanlega ákvörðun í máli þeirra. Lögmaður fjölskyldunnar segir hana vonast til að fá dvalarleyfi hér af mannúðarástæðum.

Útlendingastofnun synjaði sýrlenskri fjölskyldu um efnislega meðferð á hælisumsókn sinni um miðjan október. Ástæðan var sú að fjölskyldan hafði þegar fengið hæli í Grikklandi.

Um tveir til þrír mánuðir í ákvörðun

Fjölskyldan kærði synjun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála. Kristjana Fenger lögmaður fjölskyldunnar segir hana hafa jafnframt óskað eftir því að fá að dvelja hér meðan kærunefndin fjallaði um málið. „Hún hefur fengið frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar sem þýðir að hún mun ekki vera send til Grikklands fyrr en að kærunefndin hefur endurskoðað ákvörðunina. Hvað er það langur tími heldurðu? Það er í raun og veru ömögulegt að segja en svona mín reynsla er sú að það sé svona sirka tveir, þrír mánuðir.“ Kristjana segir að vel fari um fjölskylduna, dæturnar tvær séu í leikskóla en hjónin séu vitanlega óörugg með stöðu sína. 

Fyrsta mál sinnar tegundar

Kristjana segir málið óvenjulegt að því leyti að kærunefndin hefur ekki áður fjallað um mál fólks sem þegar hefur fengið stöðu flóttamanna í öðru landi, það er Grikklandi, sem þegar hefur enga stjórn á straumi flóttamanna þangað frá Sýrlandi. „Þá er þetta mögulega örlítið stefnumarkandi ákvörðun þannig að þetta er spurning um að þau endurskoði þessa ákvörðun og vonandi komist að annarri niðurstöðu. Gætu þau þá hugsanlega veitt leyfi til að dvelja hér af mannúðarástæðum eða eitthvað svoleiðis? Já, já, það er svona mögulega líklegasta niðurstaðan að þau fái að dvelja hér á grundvelli 12. greinar, sem er dvalarleyfi af mannúðarástæðum.