Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Syntu yfir Önundarfjörð eins og kýrin Sæunn

Mynd: Jóhannes Jónsson / RUV.IS

Syntu yfir Önundarfjörð eins og kýrin Sæunn

25.08.2018 - 19:50
Sundgarparnir eru ekki ósvipað á sig komnir eftir sundið eins og Sæunn á sínum tíma, segja ábúendur í Valþjófsdal í Önundarfirði. Hún var þó hvorki í sundgalla né með froskalappir. Í dag syntu ellefu manns yfir Önundarfjörð til heiðurs kúnni Sæunni sem synti þessa sömu leið, sér til lífs.

Tveir og hálfur kílómetri yfir Önundarfjörð

Ellefu sundgarpar fylgdu í dag fordæmi kýrinnar Hörpu sem braust úr greipum eiganda síns á leið til slátrunar á Flateyri haustið 1987, og stakk sér í hafið. Halldór Mikkaelsson, bóndi í Neðri-Breiðadal og fyrrverandi eigandi Hörpu segir hana og mömmu hennar hafa verið af sækúarkyni hafi alltaf leitað í hafið, þar vildu þær helst vera. Harpa, sem reyndist kálffull, linnti ekki látum fyrr en hún náði landi handan fjarðarins í Valþjófsdal, eftir tveggja og hálfs kílómetra sund.

Til heiðurs kúnni

„Þetta er allt henni til heiðurs og þessum ótrúlega lífsvilja sem hefur verið í þessari skeppnu,“ segir Bryndís Sigurðarsdóttir, Sæunnarsundsstýra. „Ég er búin að vera nokkuð kvíðin fyrir þeirra hönd,“ segir Guðrún Hanna Óskarsdóttir, fyrrverandi eigandi Hörpu úr Neðri-Breiðadal í Önundarfirði. - Að þau komist að því hversu mikil þrekraun þetta var?  „Já, það er það nefnilega,“ segir Guðrún Hanna. „Og hafa þetta af í 2,5 kílómetra og í stórsjó í október,“ bætir Bryndís við.

Lífsviljinn vakti mikla athygli

Jóhanna Halldórsdóttir var 5 ára þegar Harpa stakk af, hún segist ekkert muna eftir kúnni Hörpu: „Nei, engan veginn, en ég man eftir þessu viðtölum og framhaldinu.“ Afrek og lífsvilji Hörpu vakti mikla athygli. Harpa synti sér til lífs og ábúendur í Valþjófsdal keyptu hana í fjörunni. Ómar Ragnarsson, fréttamaður, hitti bændur úr Neðri-Breiðadal og frá Kirkjubóli II í Valþjófsdal stuttu eftir afrekið. „Já, okkur fannst það eðileg framvinda að hún yrði hérna áfram fyrst hún tók þessa stefnu,“ segir Guðmundur Steinar Björgmundsson. Þá var ákveðið að Harpa skyldi heita Sæunn. „Er þetta ekki bara hvalreki fyrir ykkur?,“ spyr Ómar Sigríði Magnúsdóttur, ábúanda á Kirkjubóli II í Valþjófsdal. „Jú, þetta er bara kúreki,“ svarar Sigríður. Sæunn mjólkaði vel og dvaldi á Kirkjubóli í Valþjófsdal til æviloka - hún er nú grafin þar í fjörunni.

Mynd: RÚV / RÚV
Ómar Ragnarsson gerði frétt um afrek Sæunnar árið 1987

Sæunn komst af án hjálpar

Eins og fyrir þrjátíu og einu ári tóku ábúendur á Kirkjubóli í Valþjófsdal á móti sundköppunum. Albert Högnason og Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir voru fyrst til að þvera fjörðinn. Sundið var mjög frjálslegt, fólk mátti til dæmis nota froskalappir og vera í sundgöllum. „Hún [Sæunn] hefur annan sess í huga manns,“ segir Albert. „Ég hugsaði til hennar á leiðinni, hún er miklu þyngri, að syna hérna yfir það var ótrúlegt að hún hafi getað þetta,“ segir Ólöf Dómhildur. Hvernig var Sæunn þegar hún kom í land? „Hún var bara ótrúlega vel á sig komin, bara svipuð og þetta fólk hérna. Smá riða í henni þegar hún tók fyrstu skrefin hérna í sandinum og svo var þetta bara búið,“ segir Guðmundur Steinar. „En hún var ekki í blautbúning og ekki með froskalappir“ „Og fékk að fara í heitt kar þegar hún kom í land og fékk ekki teppi,“ bæta þau Sigríður Magnúsdóttir við. „En þetta er æðislegt,“ segir Sigríður.