Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Synjunarhlutfall tífaldaðist skyndilega

01.09.2017 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Hlutfall þeirra sem er synjað um örorkulífeyri hefur skyndilega tífaldast, í fyrra var það 0,6% en það sem af er þessu ári er það 5%. Lagabreytingar skýra þetta ekki og enn er stuðst við örorkumatið frá 1999. Margrét Jónsdóttir, deildarstjóri hjá Tryggingastofnun segir að stofnunin hafi hert verklag. Fjölgun öryrkja hafi líklega spilað þar inn í. Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður Öryrkjabandalagsins, segir hækkun synjunarhlutfalls ekki koma á óvart.

Synjunarhlutfallið breyttist lítið á árunum 2013 til 2016. Árið 2013 sóttu 4933 um að fá örorku metna, 76 beiðnum var synjað í fyrstu, 1,5% þeirra. Hluti þeirra var endurskoðaður innan nokkurra mánaða og örorkumat samþykkt. Eftir stóðu 28 sem var synjað 0,5% allra beiðna þess árs. Í fyrra sóttu 5806 um staðfestingu á örorku, 0,6% þeirra var synjað. Það sem af er þessu ári hefur um 5% beiðna verið synjað, það er tífalt hærra synjunarhlutfall en hefur tíðkast síðastliðin ár.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv

„Við höfum verið að kalla eftir því, þegar fólk sækir um örorku að endurhæfing sé fullreynd. Margir hafa kannski ekki fullreynt hana og þá höfum við synjað og bent fólki á í því bréfi hvaða leiðir séu færar í að sækja endurhæfingu,“ segir Margrét.

Hvers vegna hefur verið meiri áhersla lögð á þetta í ár en í fyrra? 

„Kannski hefur það bara verið,  við erum náttúrulega alltaf að rýna í tölur og sjáum þessa aukningu. Ég veit það ekki alveg, við eigum eftir að skoða það betur en ég hef trú á því að við höfum verið að herða kannski eða fara yfir verkferlana betur.“

 Hún segir stofnunina hafa breytt verklaginu, það hafi ekki verið neinn þrýstingur að ofan.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Margrét.

„Fólk er í óvissu“

Tölurnar koma Halldóri Sævari ekki á óvart. Öryrkjabandalaginu finnist það hafa færst í aukana að fólk fari á endurhæfingarlífeyri í stað örorkulífeyris. Hann segist ekki geta sagt til um hvort þessi breyting sé til góðs. Það sé jákvætt að veita fólki tækifæri til þess að ná heilsu aftur. Hann hafi þó á tilfinningunni að í mörgum tilfellum endi fólk á örorkunni þó að það byrji á endurhæfingarlífeyri. 

„Ég held að fólk geti líka alveg fengið starfsendurhæfingu þó að það sé búið að meta það með örorku. Fólk sem ég tala við, sem er í þessu ferli, það þarf kannski að sækja um framlengingu á endurhæfingarlífeyri á nokkurra mánaða fresti. Það veldur þeim óvissu. Endurhæfingin hefur kannski varla farið í gang eða það er kannski komið með samning við Vinnumálastofnun, vinnustaðasamning, sem rennur svo úr gildi þegar þarf að fara að endurnýja endurhæfingarlífeyrinn. Fólk er alltaf í þessari óvissu sem er mjög slæmt, held ég. Það líka að sækja um örorku eða endurhæfingarlífeyri, þetta er margra vikna og mánaðaferli og á meðan er tekjustreymi til fólks lítið sem ekkert.“

Eðlilegt að fólk standist matið

En er það eðlilegt að svo litlum hluta umsókna um að fá örorku metna og þar með örorkulífeyri sé synjað. Margrét segist ekki hafa samanburð við nágrannalöndin. Hún sér ekkert athugavert við synjunarhlutfallið. „Fólk sem sækir um örorku og er búið að fara í gegnum endurhæfingu og fagaðilar þar telja að endurhæfing sé fullreynd, þá er ekkert óeðlilegt að fólk fari í gegnum matið.“

Það lifir enginn á styrknum

Þorsteinn Víglundsson, velferðarráðherra, sagði í Speglinum í gær að það væri hvati til þess í kerfinu að meta örorku fólks háa til þess að tryggja því framfærslu. Þeir sem fá 75% örorkumat fá fullan lífeyri en þeir sem eru metnir með örorku undir því fá örorkustyrk um 30 þúsund krónur. Telur Margrét að þetta hafi áhrif á mat lækna? 

„Ég get eiginlega ekki metið það en það gefur auga leið að ef fólk er veikt og fær þennan örorkustyrk, það náttúrulega lifir enginn af honum.“

Færst hefur í aukana að ungt fólk fái örorkumat, einkum vegna geð- eða taugaþroskaraskana. Þunglyndi og kvíði er algengasta orsökin meðal ungra kvenna en einhverfuraskanir meðal ungra karla. 

 

Reglugerð um örorkumat frá árinu 1999 fylgir matslisti sem gert er ráð fyrir að umsækjandi eða aðstandandi hans fylli út hjá lækni. Fyrri hluti hans snýr að líkamlegri færni, síðari hlutinn að andlegri. Til að teljast öryrki vegna geðraskana þarf að fá tíu stig í seinni hluta matslistans. Hér eru dæmi um atriði á listanum:

  •  Ef umsækjandi getur ekki einbeitt sér að því að hlusta á útvarpsþátt eða lesa tímaritsgrein fæst eitt stig.
  • Ef andleg streita átti þátt í því að hann hætti að vinna fást tvö stig.
  •  Ef hugaræsingur vegna hversdagslegra atburða leiðir til óviðeigandi eða truflandi hegðunar fást tvö stig.
  • Ef hann drekkur áfengi fyrir hádegi fást tvö stig.

„Það er enginn öryrki sem þarf ekki að vera það“

 Ekki er horft á þessi stig eingöngu, heldur er niðurstaða matslistans skoðuð með hliðsjón af vottorðinu frá þeim lækni sem greindi færnisskerðinguna og vísaði umsækjanda í örorkumat. Margrét segir að matið sé alltaf huglægt að einhverju leyti en þetta sé faglegt ferli.

„Maður getur ekkert bara ákveðið að fylla út spurningalistann, svara honum eftir eigin getu og fara svo til læknis og biðja um vottorð. Þetta er alveg faglegt ferli. Hvað sem okkur finnst um aukningu á fjölda öryrkja þá er bara heilsufarið þannig. Það er enginn öryrki sem þarf ekki að vera það. Ég held við séum stundum að ímynda okkur það,“ segir Margrét.