Synjað um ríkisborgararétt vegna hraðasektar

27.06.2017 - 19:58
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Indverskur maður sem búið hefur á Íslandi síðastliðin ellefu ár segir í Facebook-færslu frá því að umsókn hans um íslenskan ríkisborgararétt hafi verið hafnað vegna einnar hraðasektar. Þetta fékk hann að vita í dag, en það tók hann að eigin sögn sex mánuði að fá skýr svör um hvers vegna umsókninni var hafnað.

Bala Kamallakharan er indverskur fjárfestir og hefur búið hér á landi í ellefu ár. Hann starfaði í bankageiranum fyrir hrun, en sneri sér síðar að frumkvöðlageiranum. Þar hefur hann látið mikið að sér kveða og kom meðal annars að því að stofna ráðstefnuna Startup Iceland.

Í færslu á Facebooksíðu sinni segir hann frá því hvernig ein hraðasekt sem hann fékk þegar hann ók milli Selfoss og Reykjavíkur varð til þess að umsókn hans um ríkisborgararétt var hafnað. Hann greiddi sektina umsvifalaust.

„Ég er sífellt minntur á það hve erfitt er að vera samþykktur inn í hvert samfélag. Og enn meiri vonbrigðum veldur að sjá hvað innflytjendur mæta ólíkum kvörðum. Ég hef alltaf vitað að ég yrði lagður við ólíkan mælikvarða en aðrir. Það varð bara ákaflega augljóst í dag. Til allra innflytjenda og flóttamannanna þarna úti, þetta er erfiður heimur fyrir okkur ... en höldum ró okkar og kappkostum að láta þetta ekki hafa áhrif á okkur,“ segir hann í færslunni.

Útlendingastofnun veitir íslenskan ríkisborgararétt og sér um afgreiðslu umsókna. Þetta kemur fram á heimasíðu stjórnarráðsins

Færslu Kamallakharan má sjá hér að neðan.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi