
Í mars 2013 voru vörugjöld á sæt matvæli hækkuð og var helsta markmiðið að beina neytendum í átt að heilsusamlegri matvælum, auk þess að einfalda skattumhverfið og auka tekjur ríkissjóðs. Sykurskatturinn var aflagður í árslok 2014.
Árni Sverrir Hafsteinsson, sem kynnti í dag niðurstöður rannsókna Rannsóknarseturs verslunarinnar á áhrifum skattsins, segir að áhrifin hafi meðal annars verið mjög lítil, því fólk hafði ekki sambærilegar vörur til að velja úr, sem ekki féllu undir sykurskattinn. Það var vegna þess að sykurskatturinn birtist sem skattlagning á sætt bragð en ekki bara sykur.
Árni segir það hafa verið misráðið að reyna að stýra sykurneyslunni með sköttum. „Það er hægt að stýra neyslu með sköttum en þeir verða þá að vera á vöru sem eru stærri hluti af útgjöldum viðkomandi einstaklinga. Dæmi um þetta er bensín,“ segir Árni Sverrir. „Eins með tóbak. Þeir sem neyta þess vita nákvæmlega hvað pakkinn á að kosta. Hann er líka heldur dýrari en súkkulaðistykki. Þetta virkar betur fyrir svoleiðis vörur.“
Markmiðið um minni sykurneyslu náðist því ekki, enda skilaði skatturinn meiri tekjum í ríkissjóð en gert var ráð fyrir eða um einum milljarði króna. „Neytendur hafa því borgað brúsann fyrir það,“ segir Árni Sverrir.