Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sykurhúðuð framsetning á LÍN-frumvarpi

28.05.2016 - 14:52
Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir framsetningu á væntanlegu frumvarpi um Lánasjóð íslenskra námsmanna sykurhúðaða og mörgum spurningum sé ósvarað. Drífa Snædal, framkvæmdarstjóri Starfsgreinasambands Íslands, telur breytingarnar draga úr jöfnuði til náms. Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknar, telur breytingar auka jafnræði en ekki draga úr því.

Tilkynnt var í gær að frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna fælu sér grundvallarbreytingar og að kerfið yrði fært nær styrkjakerfi að norrænni fyrirmynd. Námsmenn geta fengið styrk að upphæð 65 þúsund krónur á mánuði,  að hámarki 3 milljónum króna í heild. Í fréttatilkynningu frá Menntamálaráðuneytinu eru helstu breytingar nefndar en frumvarpið í heild er ekki aðgengilegt fyrr en það verður lagt fyrir Alþingi í næstu viku.

Katrín Júlíusdóttir segir framsetningu ráðuneytisins í fréttatilkynningunni ekki gefa rétta mynd. „Þetta var einhver sykurhúðaðasta fréttatilkynning sem ég hef lesið um langan tíma. Þetta hljómaði allt ofskaplega vel þegar maður las þetta og fyrirsagnirnar voru flottar.“

Katrín segir verið sé að hækka vexti á lánum og afborganir hjá stórum hópi fólks þar sem þær verði ekki lengur tekjutengdar. Áætlað er að lántakendur geti frestað greiðslum við fyrstu íbúðarkaup en Katrín segir óljóst hversu hagstætt það sé þegar vextir eru hækkaðir og afborganir verði fastar.

Drífa Snædal telur frumvarpið hápólitískt og sé afturför varðandi frelsi til náms. „Það er verið að breyta möguleikum fólks til náms og draga úr möguleikum fólks til náms, sem ég get ekki ímyndað mér að verði nokkur sátt um.“

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknar, telur breytingarnar jákvæðar. „Sérstaklega aukið jafnræði, að það sé bara beinlínis skipting á því sem eru styrkir og hvað eru lán. Þá eru bara allir sem hafa aðgengi að styrkjakerfi. Þetta þekkjum við frá Norðurlöndunum.“