Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Sýknaðir af ákæru um stórfelld umboðssvik

Mynd með færslu
 Mynd: Fréttastofa - RÚV
Hreiðar Már Sigurðusson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun sýknaðir fyrir stórfelld umboðssvik.

Ákærðu voru ekki viðstaddir dómsuppsöguna í morgun. Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, sagði að við fyrstu sýn væri margt sem hann gerði athugasemdir við í dómnum. Nú verði farið yfir hann og það metið í kjölfarið hvort honum verði áfrýjað til Hæstaréttar.

Hreiðar Már og Sigurður voru ákærðir fyrir að misnota aðstöðu sína siðustu vikurnar fyrir hrun með hátt í 70 milljarða króna lánveitingum til aflandsfélaga í eigu Ólafs Ólafssonar, Kevins Stanfords og fleiri vildarviðskiptavina Kaupþings. Féð var lánað til flókinna viðskipta með skuldatryggingar á Kaupþing. Magnús Guðmundsson var sakaður um hlutdeild.

Hreiðar viðurkenndi við aðalmeðferð málsins að 10% af tæplega 80 milljarða króna neyðarláni frá Seðlabankanum hefðu farið í lánveitingarnar, en það hefði verið til að verja tífalt stærri útlán. Hann sagði að engin annarleg sjónarmið hafi legið að baki viðskiptunum. Sigurður sagðist mjög takmarkaða aðkomu hafa haft að viðskiptunum, og svaraði flestum spurningum saksóknara þannig að hann vissi ekki svarið.

Hreiðar Már og Magnús hafa þegar fengið hámarksdóma, eða sex ára fangelsi en Sigurður fimm ár. Saksóknari fór, við aðalmeðferð málsins, fram á að refsiauki almennra hegningarlaga yrði nýttur og refsing aukin um allt að helming, það er að mennirnir fengju refsingu umfram hámarksrefsingu. Verjendur þeirra fóru hins vegar fram á frávísun málsins. Héraðsdómur sýknaði mennina í morgun.