SVÞ hefur þungar áhyggjur af verðhækkunum

21.04.2019 - 12:37
Vetur fep 2016
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Lögfræðingur samtaka verslunar og þjónustu segir samtökin hafa þungar áhyggjur af boðuðum verðhækkunum fyrirtækja. Réttara hefði verið að hagræða í rekstrinum frekar en að velta kostnaðarhækkunum vegna kjarasamninga út í verðlagið.

Í gær var greint frá því að fyrirtæki á matvælamarkaði ætli að grípa til verðhækkana ef nýundirritaðir kjarasamningar verði samþykktir. Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur samtaka verslunar og þjónustu, segir að hækkanirnar komi á óheppilegum tíma, en enn er verið að kjósa um kjarasamningana.

„Það er mjög skammt frá því að kjarasamningar voru undirritaðir. Þeir voru undirritaður í kringumstæðum þar sem undir lági  skýrar forsendur og allir voru sammála um markmiðin og markmiðin voru skýr. Þannig að okkur hefur fundist að til dæmis heildsölum hefði ekki átt að dyljast hver heildarmyndin er og að hvaða markmiði menn væru að vinna. Við höfum í rauninni bara þungar áhyggjur af þessari stöðu, að þetta sé  komið upp svo skömmu eftir undirritun kjarasamninga,“ segir Benedikt.

Benedikt segir stöðu fyrirtækjanna vera misjafna og þau séu í misgóðri stöðu til að takast á við þær hækkanir sem felast í lífskjarasamningunum. „Maður hefði haldið í ljósi þess ástands sem er núna og tilvistar þessa samnings og forsendnanna og markmiðanna að menn myndu nú einbeita sér að því að horfa inn á við og líta til hagræðingar áður en svona aðgerðir eru boðaðar.“

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi