Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Svört atvinnustarfsemi skaðleg

02.11.2011 - 18:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Ríkissjóður, sveitarfélög, lífeyrissjóðir, stéttarfélög og launþegar verða af tæpum fjórtán milljórðum á hverju ári vegna svartrar atvinnu. Svört vinna virðist mun algengari á Vestfjörðum en annars staðar á landinu.

Hópur á vegum embættis ríkisskattstjóra, Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins heimsótti í sumar yfir tvöþúsund lítil og meðalstór fyrirtæki um allt land til að kanna bæði rekstur þeirra og aðstæður yfir sexþúsund starfsmanna fyrirtækjanna. Niðurstaðan kom á óvart því tólf prósent starfsmanna voru á svörtum launum, borguðu hvorki launaskatta né launatengd gjöld. Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, segir umfangið hafa komið sér á óvart og að ástandið virðist hafa versnað undanfarið.

„Þetta eru vondar fréttir að því leyti til að ástandið er þetta slæmt en þetta eru góðar fréttir að því leyti til að við höfum þarna verkefni til að takast á við,“ sagði Skúli Eggert í viðtali við fréttastofu RÚV.

Tap samfélagsins vegna þessara svika er metið á þrettán komma átta milljarða á ári. Það eru peningar sem ættu með réttu að renna í ríkissjóð eða til sveitarfélaga, lífeyrissjóða, stéttarfélaga eða til launþega sjálfra í formi lífeyrisréttinda.
Hlutfallslega var svört vinna algengust á Vestfjörðum, eða átján prósent þeirra sem lentu í úttektinni en fæst tilvik á norðausturlandi, ríflega átta prósent starfsmanna. En hvað einkennir þá sem stunda svarta vinnu?

„Þetta virðist vera fólk sem er á svörtum launum, hvernig svo sem á því stendur. Hvort sem það er vegna hvatningar þeirra sem reka fyrirtæki eða vegna vanþekkingar. Fólk gerir sér ekki grein fyrir því hvað það er að blekkja mikið sjálfa sig eða svíkja sjálfa sig mikið. Það er að tapa svo miklum réttindum með því að vera á duldum launum,“ sagði Skúli Eggert að lokum.