Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Svona hringavitleysa“ auki ekki traust

05.04.2016 - 16:29
Mynd: RÚV / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, segir að atburðarás dagsins sé meira en lítið sérkennileg. „Klukkan níu í morgun sagði forsætisráðherra að ríkisstjórnarsamstarfið stæði styrkum fótum og héngi ekki á bláþræði, klukkan tólf var hann mættur á Bessastaði með þingrofstillögu og tillögu um kosningar og klukkan þrjú stígur hann til hliðar og ætlar að fela varaformanni sínum að verða forsætisráðherra.“

Atburðarásin sé ekki til þess fallin að auka traust til ríkisstjórnarinnar. „Hér stöndum við sem samfélag frammi fyrir vandasömu verkefni sem er það að takast á við þessar alvarlegu fréttir sem komu fram í fyrradag. Svona, leyfi ég mér að segja, hringavitleysa er ekki til þess fallin að auka traust á ríkisstjórninni og okkar krafa stendur enn óhögguð. Hún er um þingrof og kosningar.“

Katrín segir að málið snúist um að ráðamenn þjóðarinnar hafi kosið að spila ekki eftir þeim reglum sem settar hafa verið í samfélaginu og kosið að halda því leyndu. „Ég tel að málið sé af þeim alvarleika að það sé mjög mikilvægt að almenningur fái tækifæri til að kjósa nýtt þing.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV