Svipta hulunni af feluleiknum gagnvart ofbeldi

22.05.2019 - 13:02
Skjáskot úr myndbandi UNICEF úr átakinu Stöðvum feluleikinn gegn ofbeldi á börnum á Íslandi.
 Mynd: UNICEF
Í dag hóf UNICEF átak gegn ofbeldi á börnum á Íslandi með yfirskriftinni Stöðvum feluleikinn. Samantekt sem unnin var fyrir UNICEF sýnir fram á að eitt af hverjum fimm börnum á Íslandi eru beitt líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur. Samtökin telja að ofbeldi sé ein helsta ógnin sem steðji að börnum hér á landi. 

Lykilmyndband átaksins, sem frumsýnt var í dag, á að varpa hulunni af feluleiknum sem ríkir í samfélaginu gagnvart ofbeldi á börnum. Átakinu fylgir ákall til almennings um að ganga í breiðfylkingu fólks sem tekur afstöðu gegn ofbeldi á börnum. Skrái fólk sig í átakið fær það sendar upplýsingar um hvernig á að bregðast við þegar grunur leikur á að barn sé beitt ofbeldi. UNICEF hyggst nota undirskriftirnar til að þrýsta á stjórnvöld að stofna Ofbeldisvarnarráð sem rannsaki og safni markvisst upplýsingum um ofbeldi gegn börnum á Íslandi og beiti sér fyrir forvörnum og fræðslu. Auk þess setur UNICEF fram kröfu um að öll sveitarfélög landsins séu með skýra viðbragðsáætlun gegn ofbeldi.  

„Myndbandið fjallar um þann feluleik sem við teljum ríkja gagnvart ofbeldi á börnum, feluleik sem á sér margar birtingarmyndir,“ er haft eftir Steinunni Jakobsdóttur, kynningarstjóra UNICEF á Íslandi í tilkynningu.

„Öll börn eiga rétt á ofbeldislausri æsku“

„Feluleikurinn lýsir sér meðal annars í því að við fullorðna fólkið bregðumst of sjaldan við þegar við sjáum, heyrum eða okkur grunar að barn sé beitt ofbeldi, hvort sem það er inni á heimilum, í búðinni, í blokkinni eða í bæjarfélaginu,“ segir Steinunn. Feluleikurinn birtist auk þess í því að stjórnvöld hafi hingað til ekki tekið á ofbeldi gegn börnum af nægilegri festu og ekki haft fullnægjandi eftirlit með umfangi vandans, sem sé forsenda þess að hægt sé að vinna markvisst gegn ofbeldinu.

„Ég held að flest okkar geti tengt við atvik þegar við vissum ekki hvort væri best að skipta sér að eða láta kyrrt liggja. Í flestum tilfellum er það vegna þess að fólk einfaldlega veit ekki hvað er best að gera,“ segir Steinunn. Dæmin sýni einnig að mörg börn reyni að segja frá ofbeldinu áður en nokkuð er gert. Sum deili reynslu sinni ekki með neinum fyrr en á fullorðinsárunum. 

„Öll börn eiga rétt á ofbeldislausri æsku. Við vonumst til að myndbandið hreyfi við fólki og að við náum að búa til breiðfylkingu fólks sem beitir sér fyrir réttindum barna. Saman getum við stöðvað þennan feluleik og þrýst á stjórnvöld að standa vaktina,“ segir Steinunn. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi