Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Svifryk líklega yfir heilsuverndarmörkum í dag

31.03.2016 - 14:02
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Styrkur svifryks (PM10) verður líklega yfir sólarhrings-heilsuverndarmörkum í Reykjavík í dag en mörkin eru 50 µg/m3. Mælistöðin við Grensásveg er þegar farin að mæla svifryk yfir þessum mörkum, en það eru aðeins hálftímagildi, ekki sólarhringsgildi.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að í dag er þó nokkur vindur, götur þurrar og engar líkur á úrkomu. Gert er ráð fyrir vætu í nótt og fyrramálið og hæglætisveðri eftir hádegi á morgun sem ætti að draga úr svifryksmengun.

Samkvæmt mælingu frá því klukkan 13:30 í dag er hálftímagildi á Grensásveginum tæplega 184 µg/m3. Það teljast slæm loftgæði og þýðir að þeir sem eru með ofnæmi eða eru með alvarlega hjarta- eða lungnasjúkdóma ættu að forðast að vera úti.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. 

Hér er að fylgjast með styrk svifryks á og annarra mengandi efna.

 

 

 

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV