Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Svíður sárt að sumarlokun sé fastur liður“

08.07.2019 - 22:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórn Geðhjálpar lýsir yfir þungum áhyggjur af sumarlokun einnar af þremur bráðageðdeildum Landspítalans. Framkvæmdastjóri geðsviðs spítalans segir lokunina óhjákvæmlega vegna manneklu.  

Legurýmum á deild 33-A, einni af þremur bráðageðdeildum Landspítalans, var fækkað um fimmtán á föstudag. Lokunin verður í gildi þar til eftir verslunarmannahelgi. Rýmum hefur verið fækkað á geðsviði Landspítala yfir sumarið í um tíu ár vegna manneklu. Geðhjálp lýsir yfir þungum áhyggjum vegna málsins. Notendum og aðstandendum svíði sárt að sumarlokun sé orðin fastur liður í starfsemi sviðsins.

Einar Þór Jónsson, formaður Geðhjálpar, segir hættuástand skapast af lokuninni. „Þetta reynir mest á veikasta hópinn og veikustu einstaklingana og þeirra aðstandendur. Þetta eykur álag á marga aðstandendur og tekur sumarfríið af mörgum og síðan sýnir reynslan að þetta hættuástand sem skapast er raunverulegt.“

„Þetta er eitthvað sem okkur í Geðhjálp finnst ekki forsvaranlegt að gera þegar aðstæður eru erfiðastar.“ 

Geðhjálp hvetur stjórnendur geðsviðs til að mæta manneklu með því að bæta launakjör og sækjast eftir kröftum starfsmanna með fjölbreytta menntun og reynslu. Framkvæmdastjóri sviðsins segir að til að vinna á vandanum sé mikilvægt að lögð verði áhersla á að fjölga hjúkrunarfræðingum.

María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans, segir að lausn á vandanum felist því að fjölga hjúkrunarfræðingum. 

„Við þurfum á fagfólki að halda til að reka starfsemina og það yrði mikil öryggisógn og það kemur ekki til greina að vera með deildir sem eru reknar á ófaglærðu fólki.“ 

„Það þarf að fjölga útskrifuðum hjúkrunarfræðingum, það þarf að bæta kjör þeirra og siðan þarf Landspítali að bæta aðstæður. “ 

Einar segist vilja sjá breytingarnar gerast hraðar, þó margt gott sé í vinnslu. 
„Við viljum sjá þetta gerast hraðar og það þarf að sýna virkilegan vilja til breytinga og það þýðir að það þarf að leggja meira fjarmagn i malaflokkinn og tengja þetta fólk af meiri viðsýni í öllu starfi og stefnumótun. “