Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sviðsetning á sjálfinu

Mynd: Borgarleikhúsið / Borgarleikhúsið

Sviðsetning á sjálfinu

30.09.2019 - 19:50

Höfundar

Sýningin HÚH! er einlæg, fyndin og kaldhæðnisleg en þyrfti fleiri og breiðari sjónarhorn, að mati Brynhildar Björnsdóttur gagnrýnanda, sem tók þessa nýjustu uppfærslu leikhópsins RaTaTam fyrir í Menningunni.

Brynhildur Björnsdóttir skrifar:

Verk um að vera Íslendingur, sjálfsmynd okkar og ímynd okkar út á við og svo streituna og álag nútímasamfélagsins á daglegt líf hafa löngum verið áberandi á fjölum leikhúsanna. Skemmst er að minnast verksins Independent Partý People sem leikhópurinn Sálufélagar leikur nú í Tjarnarbíó en á síðasta leikári sáum við meðal annars Fyrirlestur um eitthvað fallegt sem fjallaði um kvíða og þá er hægt að nefna verk Guðmundar Steinssonar Stundarfrið í þessu samhengi sem var frumsýnt árið 1979.

Leikhópurinn RaTaTam tekur nú keflið og heldur áfram að spinna þennan þráð með verkinu Húh! Best í heimi sem frumsýnt var á föstudaginn. Þetta er þriðja sýning leikhópsins sem áður hefur sett upp verk um ágeng efni eins og SUSS! þar sem hópurinn safnaði sögum af heimilisofbeldi og vann sýningu upp úr þeim og Ahhh... þar sem unnið var með texta Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur um ástina. Aðferðafræðin er alltaf sú sama, hópurinn vinnur út frá texta og spuna og býr til sýninguna saman undir stjórn leikstjórans Charlotte Böving sem hefur margoft sýnt færni sína í því að segja sögur á skapandi og frumlegan hátt, nú síðast í einleiknum Ég dey! Sem sýndur var í Borgarleikhúsinu í vor.

Verkið Húh! Best í heimi fjallar um það hvernig við sviðsetjum líf okkar, á yfirborðinu erum við hress, allt er frábært og alltaf nóg að gera. Þetta er þó aðeins brot af sjálfi okkar, því sem við erum og upplifum, undir niðri erum við samansafn af því sem hefur komið fyrir okkur, skynjun okkar á sjálfum okkur, ímyndaðri skynjun annarra á okkur, á kafi í því að takast á við „kvíðann, höfnunina, skömmina og mótlætið sem fyllir líf okkar,” eins og segir í leikskrá.

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhúsið

Verkið er byggt á upplifun leikaranna sem skoða sjálfsmynd sína og upplifun út frá nokkrum hugtökum sem gjarnan eru tengd við Íslendinga eins og dugnaði, sveitamennsku, kvíða, styrk, fegurð og svo framvegis. Reyndar fannst mér sumar þessar áherslur ekki endilega eiga við í samtímanum þótt aðrar geri það. Hugmyndin um okkur sem sterkust og fallegust í heimi tilheyrir til dæmis annarri öld og búið að segja svo margt af því sem segja þarf um hvað við Íslendingar þurfum alltaf að vera dugleg svo dæmi séu tekin.

Verkið er samsett af einræðum þar sem hver leikarinn af öðrum skrælir eitt lag í einu utan af sér og afhjúpar nýjan sannleika í hvert sinn. Þau kafa djúpt niður í sjálf sig og deila viðkvæmum, grátbroslegum, hlægilegum og sársaukafullum atriðum úr lífi sínu með áhorfendum sem óhjákvæmilega hljóta að kannast við sig í frásögn einhverra þeirra.

En svo alls ekki. Það var reyndar svolítið miðlægt hjá þeim öllum og kom aftur og aftur upp að þau eru leikarar með öllu sem því fylgir. Starf leikarans er um margt bæði mótandi fyrir þá sem því gegna og býður langt frá því upp á hefðbundið líf, sem sagt er það að vera leikari langt frá því að vera sammannleg reynsla þótt vissulega geti verið áhugavert fyrir áhorfendur utan leikhússins að fá innsýn í þann heim. En það gerði það líka að verkum að áhorfendur gleymdu aldrei að það voru leikarar á sviðinu og leiksýning í gangi, eins konar framandgerving sem kannski var ekkert endilega stefnt að í verki þar sem einlægni og sannar sögur eru til grundvallar. En í leikriti sem fjallar meðal annars um sviðsetningar á sjálfinu má reyndar segja að þetta sé skemmtilegur viðsnúningur.

Ef hópurinn hefði verið fjölbreyttari hefðu líka verið fleiri sjónarhorn, öðruvísi reynsla, allur leikhópurinn er laglegt, grannvaxið, hvítt og ófatlað fólk og vandamál þess því frekar einsleit, allavega eins og áherslurnar voru lagðar í sýningunni. Ekki er við hópinn að sakast í þessum efnum, hann er eins og hann er og langflestir leikhópar hérlendis samsettir á svipaðan hátt, en fyrir vikið varð reynslurófið fátæklegra og tengingarmöguleikar við áhorfendur minni.

Eins og fyrri verk hópsins byggist þessi sýning mikið á trúðleik, farið er út í öfgar með hluti og hreyfingar til að undirstrika alvarleika þeirra og/eða fáránleika. Þetta virkar oft vel en ekki alltaf.

Einstöku sinnum voru brandarar dregnir um of á langinn, eins og til dæmis í laginu Ég þar sem leikararnir endurtóku orðið „ég“ aftur og aftur. Kannski hefur verið ætlunin að þessi sífellda endurtekning yrði óþægileg en hún varð aðeins leiðigjörn. En sýningin var líka oft mjög fyndin og kaldhæðnisleg sem áhorfendur kunnu vel að meta.

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhúsið

Það er erfitt að koma með dóma um frammistöðu leikara í sýningu sem byggist svo mikið á persónu þeirra sjálfra og sennilega hreyfa sögurnar þeirra við hverjum og einum á ólíkan hátt. Sjálf samsamaði ég mig hvað best með Halldóru Rut sem sýndi álagið sem nútímakonur eru undir á öllum vígstöðvum og fór líka með hjartaskerandi minningar úr bernsku, en aðrir áhorfendur á öðrum aldri og af öðrum kynjum finna örugglega til samkenndar með öðrum leikurum. Tæknilega stendur leikhópurinn sig vel og náði oft að fanga áhorfendur með sér af hlátrasköllum að dæma, orkustigið hátt og tímasetningar góðar. Tónlistin var einnig oftast mjög skemmtileg og bætti mikið við sýninguna og kunnátta leikaranna á hljóðfæri var skemmtilega nýtt.

Búningar og leikmynd er í höndum Þórunnar Maríu Jónsdóttur sem hefur unnið með Charlotte Böving og leikhópnum áður og sýnt og sannað hvað hún er fær í sínu starfi. Búningarnir fylgja persónunum þar sem þær eru skrældar lag fyrir lag, frá glæsilegu ytra byrði þar sem þau líta út fyrir að hafa öll fullkomna stjórn á sér og lífi sínu yfir í fullkomið stjórnleysi þar sem búningarnir undirstrika óreiðuna innra með hverju og einu þeirra á ólíkan hátt. Ég verð reyndar að lýsa vonbrigðum mínum með fitugallann, fannst hann fordómafull tímaskekkja, þótt hann ætti að lýsa upplifun af holdafari en ekki holdafarinu sjálfu.

Leikmyndin er einnig afskaplega skemmtileg og vel gerð og þróast meðfram því að innra líf persónanna verður sýnilegra. Skjáir fyrir ofan sviðið trufluðu reyndar aðeins, þar birtust orð og setningar sem gáfu til kynna hvað áhorfandinn ætti að lesa og fá út úr senunni, sem truflaði upplifun á köflum.

Þannig má segja að öll sýningin sé byggð á einlægni sem af ýmsum ástæðum nær ekki nógu vel í gegn. Sem er miður því upplagið er fallegt og sterkt þótt það sé stundum dálítið klisjukennt. En kannski erum við Íslendingar enn þá þannig: falleg, sterk og klisjukennd.