Svíar fletta ofan af nammimafíunni

Nammibangsar.
 Mynd: Shannah Pace - Freeimages
Umfangsmikið sælgætissmygl hefur átt sér stað milli Svíþjóðar og Danmerkur síðustu ár. Upphæðirnar hlaupa á milljörðum og hafa yfirvöld lagt hald á næstum eitt hundrað tonn af nammi, sem stundum er komið mánuði eða ár framyfir síðasta söludag. Svo umfangsmikið og skipulagt er þetta nammisvindl að yfirvöld tala um skipulagða glæpastarfsemi. Kári Gylfason, fréttaritari Spegilsins í Gautaborg, skoðaði málið. 

 

Prentvillur hringdu viðvörunarbjöllum

„Slat síld" stóð á plastkassanum utan um lakkrísnammi sem er í laginu eins og síld. Sænski eftirlitsmaðurinn hlýtur að hafa orðið hissa enda heitir nammið salt síld. Og ekki bara það. Á merkimiðann á nammidollunni var sérstaklega tekið fram að í lakkrísnamminu væri ammóníak - efni sem getur verið skaðlegt, jafnvel banvænt - en ekki ammóníumklóríð, eða salmíak, eins og hefði jú verið eðlilegra.

Það voru einfaldar prentvillur eins og þessi sem meðal annars gerðu yfirvöldum hér í Svíþjóð kleift að upplýsa um umfangsmikla nammifölsun og sælgætissmygl. Þótt viðfangsefni glæpamannanna kunni að einhverju leyti að virðast léttvægt, er litið á brotin sem skipulagða glæpastarfsemi. Enda magnið gríðarlegt og talið að ágóði glæpamannanna nemi jafnvirði um sex milljarða íslenskra króna.

Gömlu og hörðu nammi prangað upp á grannþjóðina

 

Sælgæti í plastbökkum í sælgætisverslun.
 Mynd: Cisco PA - RGBStock
Svíar eru miklir nammigrísir.

Svíar eru einhverjir mestu nammigrísir Evrópu. Hver íbúi landsins hesthúsar að meðaltali um sextán kílóum af nammi á ári hverju; meira en tvöfalt það magn sem meðalmaðurinn borðar í Evrópusambandinu, sem er sjö kíló. Reyndar borða Íslendingar enn meira nammi en Svíar - um átján kíló á ári. 

En hvað verður um nammið þegar það er orðið gamalt og hart? Þá er reynt að pranga því upp á Dani - einhverju af því að minnsta kosti, líkt og sænska ríkissjónvarpið SVT fjallaði um nýlega. Fyrir rúmum tveimur árum höfðu dönsk yfirvöld samband við kollega sína austanmegin Eyrarsunds, eftir að þeir uppgötvuðu gamalt og að því er virtist falsað nammi í dönskum verslunum. Það virtist koma frá Svíþjóð. Síðan þá hafa sænsk yfirvöld gert hátt í eitt hundrað tonn af nammi upptæk. Að hluta til er þetta „falsað" nammi, ef svo má komast að orði - sælgæti sem er merkt ákveðnum framleiðanda, en ekki er vitað hvar er framleitt í raun; og að hluta til er þetta gamalt nammi, jafnvel margra ára gamalt, sem hefur verið sett í nýjar umbúðir.

Svíkja ríkið um sykurskattinn

Silver scoop of sugar, spilling onto blue surface.
 Mynd: visindavefurinn.is
Mafían leggur mikið á sig til að forðast danska sykurskattinn.

 

Nammið er svo selt til Danmerkur en án þess að greiddur sé virðisaukaskattur, sem er 25%, eða sykurskattur sem er við lýði í Danmörku. Þannig svíkja fyrirtækin ríkið um jafnvirði tvö hundruð og fimmtíu til fjögur hundruð þúsund íslenskar króna fyrir hverja pallettu af nammi. Og því er hægt að græða, ekki bara á því að selja vöru sem annars þyrfti að henda, heldur líka á skattsvikum. Talið er að danska ríkið verði af jafnvirði um sex milljarða íslenskra króna vegna þeirra. Svindlið er þaulskipulagt, enda tala sænsk yfirvöld um skipulagða glæpastarfsemi.

Skráð á bílasölum og skúrum

Hvaðan sælgætið kemur raunverulega er erfitt að vita. En framleiðslan skráð hjá skúffufyrirtækjum í öðrum Evrópulöndum - fyrirtækjum sem ekki eru með neinn raunverulegan rekstur og vonlaust er að elta uppi til að innheimta vangoldna skatta og gjöld. Eitt fyrirtæki sem hefur selt nammi fyrir jafnvirði meira en hundrað milljóna íslenskra króna síðustu ár, reyndist vera staðsett í hálfgerðum skúr á iðnaðarsvæði í Malmö. Eigandinn með langa afbrotasögu að baki. Kaupendurnir, Danmerkurmegin Eyrarsundsins, voru sjö talsins - fyrirtæki sem ýmist voru skráð í tómu kjallarahúsnæði, á bílasölu eða bara með skráð eitt pósthólf. Þrátt fyrir tilraunir sænska ríkissjónvarpsins, reyndist ekki er hægt að hafa uppi á eigendum þeirra. Yfirvöld segja að bæði seljendur og kaupendur í þessum viðskiptum séu oftar en ekki skúffufyrirtæki, rekin í blekkingaskyni.

Gæti reynst hættulegt neytendum

Þetta stóra nammisvindl snýst þau auðvitað ekki bara um skattsvik. Svindlið getur reynst hættulegt. Þegar miðarnir á sælgætisdunkunum eru falsaðir, er ekki víst að innihaldslýsingar séu réttar og það reynst hættulegt fyrir þá sem eru með ofnæmi. Auk þess sem fólk er oft, óafvitandi að úða í sig jafnvel margra ára gömlu nammi.

Vandræðaleg mistök

En þótt þessi glæpastarfsemi sé umfagsmikil og skipulögð, eru það oft vandræðaleg mistök sem verða til þess að upp kemst um svindlið. Til dæmis var sérstaklega tekið fram í innihaldslýsinu á súkkiulaðihúðuðum jarðhnetum frá M&M að varan kunni að innihalda jarðhnetur. Og nammi sem átti að hafa verið framleitt á Spáni, var pakkað í plastkassa sem framleiddir eru í Svíþjóð.

Yfirvöld í Malmö hafa síðustu ár rannsakað 10-15 mál tengd sælgætissmygli og kært nokkur fyrirtæki til lögreglu. Í Svíþjóð í heild kunna málin þó að vera miklu fleiri

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi