Sverðið lá óvarið í sandinum

05.09.2016 - 09:59
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Björn Þorbjörnsson
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Björn Þorbjörnsson
„Við vorum að leita okkur að kvöldflugi og þá liggur sverðið í sandinum alveg gjörsamlega óvarið,“ segir Árni Björn Valdimarsson, einn þeirra sem fann fornt sverð um helgina í Skaftárhreppi á Suðurlandi. Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar, segir sverðið geta verið frá 9. öld.

Árni Björn og fjórir félagar hans voru við gæsaveiðar þegar þeir sáu glitta í sverð í sandi. Á svæðinu hafði verið flóð í fyrra og má búast við að sandurinn hafi fokið ofan af sverðinu. „Það lá bara þarna og beið eftir að við myndum finna það,“ segir Árni Björn.

„Maður hefur trú á það sé eitthvað meira þarna,“ segir Árni Björn.

Árni Björn segir að þeir félagar hafi strax áttað sig á að þetta væri fornmunur, þó þeir hafi gantast með að kannski væri sverðið leikmunur í einhverri af þeim bíómyndum sem hafa verið teknar upp hér á landi. „Við höfum í raun ekki hugmynd um það enn þá,“ segir Árni Björn.

Gæsaveiðiferðin breyttist við fundinn að sögn Árna Bjarnar. „Það snerist allt um þetta.“ Þeir félagar veiddu því enga gæs.

Árni setti mynd af sverðinu inn á Facebook og um tíu mínútum síðar fékk hann símtal frá Minjastofnun. Þeir afhentu Minjastofnun sverðið til varðveisu í morgun. Þá verður hægt að meta aldur sverðsins.

Hrefna Rós Matthíasdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi