Svekktir ferðalangar misstu af flugi vegna ófærðar

10.03.2020 - 08:08
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
„Fólkinu líður að mestu leyti vel. Það eru einhverjir svolítið svekktir. Þeir eru að missa af flugi sennilega núna í morgunsárið,“ segir Árni Jóhannsson, formaður Víkurdeildar Rauða krossins. Vonast er til að hægt verði að opna veginn upp úr ellefu. 104 ferðalangar frá frá tuttugu löndum dvelja nú í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Vík í Mýrdal, þar sem þjóðvegur 1 er lokaður til vesturs, frá Vík að Steinum, vegna óveðurs.

Uppfært klukkan 08:40: Öll 104 sem dvöldu í fjöldahjálparstöð í Vík í nótt eru farin þaðan. Það er þó ekki búið að opna veginn. Árni segir að Vegagerðin gefi sér svigrúm til klukkan ellefu-tólf til þess. Það snjóaði mikið á svæðinu á nótt og því talsvert af erfiðum sköflum á veginum. 

Fólkið var á ferð í þremur rútum og nokkrum fjölda bílaleigubíla. „Það var aðeins meiri skafrenningur heldur en þeir gerðu ráð fyrir þannig það náðist ekki að halda veginum opnum. Þau voru búin að koma sér fyrir í skjóli í Víkurskála áður en þeir komu til okkar,“ segir Árni jafnframt.

Nokkrir Íslendingar eru í hópnum. „Sem betur fer eru Íslendingar farnir að átta sig á því að það er ekki verið að segja að þeir geti þetta ekki heldur ef einhver skildi festa sig þá stoppar það alla vinnu hjá Vegagerðinni að reyna að opna veginn aftur. Þetta snýst um það að Vegagerðin geti opnað veginn almennilega áður en að einhverjir aðrir geta haldið af stað. Það gengur illa þegar bílar eru fastir þvers og krus yfir veginn.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi