Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Sveitarfélög vilja taka á móti flóttafólki

26.08.2015 - 16:19
epa04773035 A handout photograph made avaiable by the British Ministry of Defence showing
 Mynd: EPA - BRITISH MINISTRY OF DEFENCE
Stærstu sveitarfélög landsins eru flest jákvæð gagnvart því að taka á móti flóttafólki. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði og Garðabæ hafa þegar sett sig í samband við velferðarráðuneytið.

Bæjarstjórinn á Akranesi segir mikilvægt að ráðuneytið fylgi verkefnunum lengur eftir bæði hvað varðar fjárhagslegan stuðning og ráðgjöf. Önnur sveitafélög eru með málin til skoðunar en bíða aðgerða félags- og húsnæðismálaráðneytis.

Íslensk stjórnvöld lýstu fyrir skömmu yfir vilja sínum um að taka á móti 50 flóttamönnum samtals á þessu og næsta ári. Ísland yrði þannig þátttakandi í samvinnu Evrópuþjóða um móttöku kvótaflóttafólks. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagði að Íslendingum væri bæði rétt og skylt að leggja lóð á vogarskálarnar. Fréttastofa leitaði viðbragða hjá stærri sveitarfélögum á landinu og spurði um afstöðu þeirra gagnvart því að taka á móti flóttafólki.

Félag ungra jafnaðarmanna skoraði á bæjaryfirvöld
Í Hafnarfirði hafði Bersinn, félag ungra jafnaðarmanna, skorað á bæjaryfirvöld að taka við flóttafólki og að Íslendingar verði að axla ábyrgð og hjálpa fólki í neyð.Guðlaug Kristjánsdóttir forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði segir að bæjaryfirvöld hafi verið búin að setja málið í farveg áður en Akureyringar tóku málið upp. Hún segir að Hafnarfjörður sé kominn í samband við ráðuneytið varðandi málið sem verði tekið upp á næsta fundi fjölskylduráðs. „Við erum mjög jákvæð en nálgumst þetta af ábyrgð. Það er fullur vilji til að skoða málið. Við skoðum hvernig staðan er og hvernig fyrri reynsla hefur reynst."

Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ á ekki von á öðru en að tekið verði vel í málið en á fundi bæjarráðs í Garðabæ í gær var bæjarstjóra falið að ræða við félagsmálaráherra um hugsanlegan stuðning bæjarins við móttöku flóttafólks. Bæjarstjóri á von á því að hann muni ræða málið við ráðuneytið og framhaldið verið metið í kjölfarið af þeim viðræðum.

Okkar ábyrgð að taka á móti þessu fólki
Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs Kópavogs segir að málið hafi ekki verið tekið fyrir en að fulltrúar Bjartrar Framtíðar taki jákvætt i slíkt erindi. „Við þurfum að ræða okkur niður á niðurstöðu þegar við heyrum frá ráðuneytinu. Þá munum við taka þetta upp í bæjarstjórn," segir Theodóra. Hún segir umræðuna góða og jákvæða og fagnar því að Akureyringar hafi vakið athygli á málinu. „Það er okkar ábyrgð að taka á móti þessu fólki, ábyrgðin er allra og við eigum að líta i eigin barm og finna hvað við getum gert."

Haraldur Sverrisson, Bæjarstjóri Mosfellsbæjar segir málið ekkert hafa borið á góma en fyrsti fundur bæjarstjórnar eftir sumarfrí er í þessari viku. „Ráðuneytið þarf að leita til sveitafélaga með erindi og útskýra í hverju þessi aðstoð ætti að felast, en við erum tilbúin að skoða málið."

Fjöldi flóttafólks frá því Flóttamannaráð var sett á stofn 1995.

Ráðuneytið þarf að fylgja málunum betur eftir
„Við höfum ekki tekið málið upp eða tekið afstöðu ennþá, en ég á von á því að áskorun ráðherra verði rædd í velferðar- og mannrétttindaráði, segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri á Akranesi. Árið 2008 tók bæjarfélagið á móti fjölmennum hópi flóttafólks eða átta fjölskyldum með börn, alls 29 manns. „Við höfum því mikla reynslu af móttöku flóttamanna sem við höfum meðal annars miðlað til annarra sveitarfélaga. Við teljum mikilvægt að undirbúa svona móttöku mjög vel og líka að ráðuneytið fylgi verkefnunum lengur eftir en gert var í okkar tilviki, bæði hvað varðar fjárhagslegan stuðning og ráðgjöf."

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja segir að hvorki verið hafi rætt að taka við flóttamönnum né að taka ekki við þeim. Aldrei hafi verið litið íbúa með öðru ríkisfangi öðrum augum en aðra.

Bíða eftir því að heyra frá ráðuneytinu
Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar í Fjarðarbyggð segir að málið hafi verið rætt lauslega undir lok bæjarráðsfundar sveitarfélagsins í vikunni. „Við erum jákvæð fyrir því að taka við flóttamönnum. Fjarðabyggð eldri tók á móti flóttamönnum frá Kosovo. Afstaða okkar er sú að við erum opin og jákvæð. Bíðum bara eftir að heyra frá ráðuneyti en málið verður tekið upp innan félagsmálanefndar. Hér er mikið af fólki af erlendum uppruna, það fer vel saman við okkar samfélag að taka við flóttamönnum."

Ari Björn Thorarensen, forseti bæjarstjórnar í Árborg segir að ekkert sé komið inn á borð hjá sveitarfélaginu og málið ekkert rætt. „Þetta er eitthvað sem þarf að skoða. Árborg myndi alveg ráða við slíkt verkefni, þrátt fyrir húsnæðiseklu," segir Ari.

Áhersla lögð á að sinna hælisleitendum
Formaður bæjarráðs í Reykjanesbæ, Friðjón Einarsson segir að málið hafi ekki verið rætt sérstaklega. Bæjarfélagið hafi verið fremst í flokki við að sinna hælisleitendum og á það hafi verið lögð áhersla. „Við höfum ekkert rætt þetta mál og það hefur ekki verið stefna tekin i málefnum flóttamanna. Ef ráðuneytið leitaði til okkar þá myndum við taka þetta upp formlega og ræða málið. Fólk er í bágri stöðu og við getum sennilega ekki leyft okkur að segja nei ef sú staða kemur upp að við verðum beðin um að aðstoða. Þjónusta og innviðir eru til staðar og reynslan er til staðar."

Reykjavíkurborg hefur tekið við 18 flóttamönnum frá Sýrlandi árin 2014 og 2015. „Borgin hefur tekið á móti flestum hópum flóttamanna á undanförnum árum og er það samkvæmt sérstökum samningi við ráðuneytið í hvert sinn. Borgin er boðin og búin að taka við fleirum," segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.