Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sveitarfélög telja sig fá of lítið úr Fiskeldissjóði

04.01.2020 - 12:02
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Ný lög sem tóku gildi um áramót skylda fyrirtæki sem stunda fiskeldi í sjó að greiða fast gjald af slátruðum fiski til ríkissjóðs. Samhliða var stofnaður nýr sjóður, fiskeldissjóður, til að styrkja innviði byggðalaga þar sem fiskeldi er stundað. Hvergi í lögunum er þó tryggt að gjaldið sem innheimt verður renni í þennan fiskeldissjóð. Sveitarfélög sem eiga tilkall til fjár í sjóðnum telja að allt of lítið af fénu renni til sveitarfélaganna og að ríkið taki of stóran hlut.

Samkvæmt lögunum þurfa öll fyrirtæki sem stunda fiskeldi í sjó að greiða fast gjald af hverju slátruðu kílói til ríkissjóðs. Fiskistofa leggur gjaldið á tvisvar á ári og hafa fyrirtækin 14 daga til að greiða gjaldið sem nemur ákveðnu hlutfalli af markaðsverði á atlantshafslaxi.

Í lögunum er einnig kveðið á um stofnun Fiskeldissjóðs sem hefur það hlutverk að styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað. Sveitarfélög sækja um styrki úr sjóðnum og 3ja manna stjórn tekur svo ákvörðun um hverjir fá úthlutað fé úr sjóðnum.

Hins vegar tryggja lögin með engum hætti að þetta gjald sem fiskeldissfyrirtækin greiða til ríkissjóðs renni í Fiskeldissjóð. Í lögunum segir að ráðstöfunarfé sjóðsins sé fjárveiting sem ákveðin sé hverju sinni af fjárlögum, og að ráðherra sé heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um starfsemi sjóðsins, þar með talið um málsmeðferð og úthlutun úr sjóðnum.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að gert sé ráð fyrir því að sjóðurinn muni fá um þriðjung þeirrar upphæðar sem innheimt sé af fiskeldisfyrirtækjunum með þessu nýja gjaldi.

Það hlutfall er þó engan veginn tryggt í lögunum sjálfum eða meitlað í stein, því eins og fyrr segir, þá stendur skýrum stöfum í lögunum: „Ráðstöfunarfé sjóðsins er fjárveiting hverju sinni af fjárlögum.“

Fjölmörg sveitarfélög sendu inn umsagnir vegna frumvarpsins. Þar kom fram útbreidd gagnrýni á hversu lítið hlutfall af þessu gjaldi ætti að renna til sveitarfélaganna og að sveitarfélögin þyrftu að leita sérstaklega til ríkissjóðs, með betlistaf, eins og það var orðað í einni umsögn. Í mörgum umsögnum kom fram að í Noregi rynnu tæplega 90 prósent af sams konar gjaldi sem innheimt er af fiskeldisfyrirtækjum þar í landi beint til sveitarfélaganna.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV