Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sveitarfélög segja stéttarfélög bera ábyrgðina

20.06.2019 - 11:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga ætlar ekki að tjá sig frekar um kjaradeilu við Starfsgreinasambandið og Eflingu á meðan hún er hjá ríkissáttasemjara. Formaður Starfsgreinasambandsins gagnrýndi sveitarfélögin harðlega í gær.

Slagur tekinn í haust

Björn Snæbjörnsson formaður Starfsgreinasambandsins sagði í kvöldfréttum í gær að það væri stál í stál í viðræðum SGS og Eflingar við samninganefnd sveitarfélaga og að félögin myndu sækja rétt sinn með góðu eða illu. Slagurinn yrði í haust enda næsti fundur hjá ríkissáttasemjara 21. ágúst. Félögin telja að starfsfólk annarra sveitarfélaga en Reykjavíkurborgar hafi ekki enn fengið frá sveitarfélögun jöfnum lífeyrisréttinda sem samið hafi verið um í Salek-samkomulaginu og síðustu kjarasamningum. 

Stéttarfélögin hafi hafnað að skipta um sjóði

Þessu hafnaði samninganefnd sveitarfélaga í yfirlýsingu í maílok og sagði þar að lífeyrissjóðsframlög launagreiðenda væru samhljóða í öllum kjarasamningum. Félagar í stéttarfélögum ASÍ greiði hins flestir í almenna lífeyrssjóði að kröfu stéttarfélaganna sjálfra, sem hafi á sínum tíma hafnað aðild að opinberu sjóðunum. 

Segir sveitarfélögin þau einu sem hafi ekki samið

Stéttarfélögin segja á móti að sveitarfélögin neiti hins vegar að samþykkja svokallaðan sérstakan lífeyrisauka sem borg og ríki hafi samið um 2017 á grundvelli Salek-samkomulagsins. 
Henný Hinz aðalhagfræðingur ASÍ sagði í Speglinum í síðustu viku að þessi sérstaki lífeyrisauki væri viðbótarframlag til að tryggja jafnverðmæt lífeyrisréttindi og að starfsmenn sveitarfélaganna [á almenna vinnumarkaðnum] að borginni undanskilinni væri eini hópurinn á vinnumarkaði núna sem ekki væri búið að semja við um þessa jöfnun. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV