Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sveitarfélög mörg neikvæð í garð Hálendisþjóðgarðs

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið - RÚV
Sveitarfélög eru mörg hver neikvæð í garð Hálendisþjóðgarðs og segja hann skerða skipulagsvald þeirra. Neikvæðust eru sveitarfélög í Árnessýslu og á Norðurlandi vestra.

Frumvarp um hálendisþjóðgarð tekur til stofnunar þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, á landsvæði sem er í sameign þjóðarinnar; þjóðlendum og friðlýstum svæðum innan miðhálendisins. Frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð er nú til umsagnar í samráðsgátt. Frestur til að skila inn umsögn rennur út á mánudaginn, þónokkrar umsagnir hafa borist, jafn misjafnar og þær eru margar. 

Í umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga segir: „Andstaða við málið er hörð og telja sveitarfélög sem eiga lögsögu innan þess svæðis sem félli undir fyrirhugaðan þjóðgarð að málið feli í sér skerðinu á skipulagsvaldi þeirra."

Árnessýsla og Norðurland vestra neikvæðust

Nýr þjóðgarður er 32% af flatarmáli Íslands, tæplega helmingur þess landsvæðis er þegar friðlýstur, þar á meðal Vatnajökulsþjóðgarður. Þjóðgarðurinn snertir mörg sveitarfélög og eru umsagnir misjafnar.

Neikvæðust gagnvart honum eru sveitarfélög í Árnessýslu og á Norðurlandi vestra. Bláskógabyggð leggst alfarið gegn áformum um stofnun þjóðgarðsins og krefst þess að áformin fari í umhverfismat. Sveitarstjórn Hrunamannahrepps segir að stofnun þjóðgarðs á hálendi Íslands eigi ekki að vera lögþvinguð aðgerð.

Sveitarstjórn í Rangárþingi eystra undrast það hversu hratt eigi að afgreiða málið. Enn hefur ekki borist umsögn frá Húnaþingi vestra, áður hefur þó verið óskað eftir að lendur sveitarfélagsins verði ekki hluti af þjóðgarðinum. Önnur sveitarfélög segja margt hafa verið unnið vel en ákveðin atriði og fjármögnun þurfi að skýra betur.

Þurfi að standa við gefin loforð

Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð segir að byggja eigi gestastofur á ýmsum stöðum, þar á meðal í Mývatnssveit. Sú gestastofa hefur enn ekki verið byggð. Skútustaðahreppur er jákvæður í garð Hálendisþjóðgarðsins en leggur áherslu á að mikilvægt sé að halda inni í lögum ákvæði um gestastofu í Mývatnssveit svo staðið verði við þau áform og loforð sem gefin voru þegar Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður, annað séu í raun svik við Mývetninga.

Þá sé löng hefð fyrir nýtingarétti á miðhálendinu eins og veiðirétti og upprekstrarrétti og mikilvægt að svo verði áfram. Ennfremur segir í umsögn frá Skútustaðahreppi að veiðar á minkum og ref séu mikilvægar til að vernda lífríki náttúrunnar. Það þurfi að vera leyfilegt áfram en ekkert sé minnst á það í frumvarpinu. 

Ráðherra heldur kynningarfundi

Umhverfis- og auðlindaráðherra fer nú um landið og heldur kynningarfundi um Hálendisþjóðgarðinn. Um 250 manns mættu á fund í Bláskógabyggð í gær, mikill meirihluti þeirra sem tóku til máls var áhyggjufullur og andvígur áformunum. Bændur höfðu meðal annars áhyggjur af beitarmálum og stjórnmálamenn af skipulagsmálum. Þá var fundur á Breiðumýri í Þingeyjarsveit í vikunni. Þar komu fram efasemdir um að stofnun garðsins væri tímabær og fólk benti á að ekki hafi gengið vel með Vatnajökulsþjóðgarð.

Guðrún María Valgeirsdóttir, formaður Landeiganda Reykjahlíðar, segir ekki til hagsbóta að stofna Hálendisþjóðgarð á meðan ekki sé hægt að reka Vatnajökulsþjóðgarð; „Ég held að ríkið þurfi fyrst að sýna frammá það að það geti rekið þá þjóðgarða sem þau eru með í dag. Friðlýstu svæðin, Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður, þetta eru fjársveltar stofnanir og það á bara langt í land“. Þá bendir Guðrún á að réttur landeigenda með óbeinum eignarrétti sé til staðar en sé hunsaður.

„Mér finnst nú svona hálfpartinn eins og einhver sé að reyna að reisa sér einhver minnismerki“ segir Guðrún. Svo virðist sem það sé verið að drífa sig í að stofna þjóðgarðinn til að setja hömlur á orkuuppbyggingu.