Sveitarfélög fá álagningarskrá ekki afhenta

05.09.2019 - 13:07
Mynd með færslu
 Mynd: LANDINN - RUV
Sveitarfélög fá ekki álagningarskrá einstaklinga afhenta í ár vegna nýrrar persónuverndarlöggjafar. Hingað til hafa þau fengið skrána afhenta þar sem hún geymir upplýsingar um álagða skatta, þar á meðal útsvar, sem er megintekjustofn sveitarfélaga. Vilji sveitarfélög skoða skrána þurfa þau að ferðast til skrifstofu ríkisskattstjóra innan þess tíma sem hún liggur frammi fyrir almenningi.

„Nú rákum við okkur á það að við fengum skrána ekki afhenta og var bent á að fara á starfstöð ríkisskattstjóra sem er á Akranesi í okkar tilfelli.“ segir Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundafjarðarbæjar og bendir á að það skjóti skökku við að þurfa að keyra 280 kílómetra til að sækja þessar upplýsingar.

Bæjarstjórn Grundafjarðabæjar hefur fylgst með og látið gera úttekt á þróun útsvarstekna meðal annars með tilliti til þróunar í atvinnumálum. Útsvarstekjur eru töluverður hluti af tekjum sveitarfélaga og voru um 80% af skatttekjum og 52% af heildartekjum bæjarsjóðs Grundafjarðarbæjar 2018.

Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga hafa sveitarfélög kærurétt vegna álagðs útsvars einstaklinga. Björg segir það eðlilegt að ríkisskattstjóri sé að fóta sig í nýju umhverfi persónuverndarlöggjafar. Botn þurfi engu að síður að fást í það hvert aðgengi sveitarfélaga eigi að vera að upplýsingum um skattskil til þeirra. Það sé sérkennilegt ef sveitarfélög fá ekki nauðsynlegar upplýsingar sem geta verið forsenda kæru.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi