Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sveinn hlaut náttúruverndarviðurkenninguna

17.09.2018 - 13:00
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Sveinn Runólfsson, fyrrum landgræðslustjóri hlaut nátturuverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Þá fengu Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir myndefni, upplýsingar og greinarskrif um íslenska náttúru.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra afhenti verðlaunin í Grasagarðinum í morgun. Í rökstuðningi fyrir fjölmiðlaverðlaununum sagði að þeir Tómas og Ólafur hefðu náð myndskeiðum og ljósmyndum af sjaldgæfum náttúruperlum landsins og þannig fært þær til almennings.

Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri hlaut nátturuverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Guðmundur sagði frá starfsævi Sveins í stuttu máli og sagði helst standa upp úr að Sveinn hafi aldrei gefist upp í baráttu fyrir landvernd. Sveinn tók við starfi landgræðslustjóra árið 1972, einungis 26 ára gamall og stýrði stofnuninni í 44 ár. Sveinn sagðist þakka fyrir verðlaunin með hrærðum huga.

„Þetta skiptir mig gríðarlega miklu máli, þetta er mikill heiður að fá þessi verðlaun og þessa viðurkenningu og ekki síst í anda þessa sem Sigríður afrekaði sem fyrsti náttúruverndarsinninn á íslandi og það er sannarlega heiður að vera tilnefndur í tilefni hennar verka sem voru náttúrulega algjörlega einstök. Einstök valkyrja sem barðist með oddi og egg til að vernda fossinn hennar, og raunverulega faðir hennar líka en hún tók honum alveg fram. Þegar faðir hennar fékk gríðarlega hátt verðtilboð í Gullfoss þá harðneitaði hann og sagði ég sel ekki vin minn.“ sagði Sveinn Runólfsson. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV