Svartur getnaðarmarkaður fer vaxandi

Mynd með færslu
 Mynd:

Svartur getnaðarmarkaður fer vaxandi

26.08.2013 - 20:56
Brýnt er að þjóðir heims komi sér saman um löggjöf um staðgöngumæðrun. Þetta kom fram í máli siðfræðinga sem töluðu á ráðstefnu um málefnið í Reykjavík í dag.

Hópur fræðimanna vinnur nú að því að semja ný lög sem leyfa staðgöngumæðrun hér á landi. Grár og svartur markaður með tæknifrjóvganir fer ört vaxandi í heiminum. Norræna lífsiðfræðinefndin blés til ráðstefnunnar. Eftirspurn eftir staðgöngumæðrun fer ört vaxandi í hinum vestræna heimi. Fleiri og fleiri glíma við ófrjósemi og fleiri og fleiri slá barneignum á frest og reynast svo of gamlir þegar til kastanna kemur. Þá leita samkynhneigðir í auknum mæli eftir þjónustunni.

Ole Schou er bankastjóri danska sæðisbankans sem er sá stærsti í heimi. 35 þúsund börn eru getin með sæði úr bankanum í yfir 70 löndum. 90% af sæðinu er til útflutnings. Bankastjórinn segir framboð og eftirspurn eftir sæði það mikla að nauðsynlegt sé að veita þjónustuna svo hún leiti ekki undir yfirborðið. Of ströng löggjöf geti slegið á framboðið en ekki á eftirspurnina. 

Alþjóðleg löggjöf næsta ómöguleg

Mest af sæðinu á markaðnum kemur frá Danmörku. Eggjamarkaðurinn er stærstur á Spáni og staðgöngumæðramarkaðurinn er mestur á Indlandi. „Fólk virðist vera að nota þetta allt saman og það nær langt út yfir öll landamæri fyrir tilstilli internetsins og það er mjög erfitt að setja alþjóðlega löggjöf um þetta, það er mjög flókið,“ segir Schou.

Löggjöfin sem nú er í smíðum kallar á að hugtökin móðir og faðir verði skilgreind upp á nýtt. Salvör Nordal, sorstöðumaður Siðfræðistofnunar HÍ segir hátt flækjustig á fyrirkomulaginu. „Það geta komið upp þær aðstæður að það er ekki gengið frá því hverjir eru raunverulegir foreldrar barnsins og það geta komið upp aðstæður þar sem að enginn vill barnið sem að hefur orðið til með þessum hætti.“