Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Svartir krossar frá Kees

Mynd: Rúv mynd / Rúv mynd

Svartir krossar frá Kees

20.02.2018 - 18:00

Höfundar

Um síðustu helgi var opnuð í safnaðarheimili Neskirkju sýningin Crux sem, eins og nafnið bendir til, leggur út af krossfestingarþemanu í vestrænni myndlist. Myndlistarmaðurinn Kees Visser á verkin á sýningunni en þau vísa á forvitnilegan hátt í langa hefð í myndlistarsögunni.

Mikilvægur í íslenskri myndlist

Í ríflega 40 ár hefur hollenski myndlistarmaðurinn Kees Visser verið viðriðinn íslenskt myndlistarlíf en það var sumarið 1976 sem hann hélt fyrst sýningu hér á landi, í sýningarsal SÚM við Vatnstíg. Hann flutti hingað til lands og var einn af stofnendum Nýlistasafnsins árið 1978. Verkin hafa alltaf verið einhvers staðar á landamærum abstraktsins, flúxusins, hugmyndalistarinnar og minimalismans.

Krossinn þungi

Á nýju sýningunni eru 14 svarthvítar myndir en að baki svörtum táknum sem birtast á hvítum fleti eru málverk endurreisnarinnar, myndir af Kristi að bera kross sinn upp á Golgatahæð og af helgum manneskjum píslarsögunnar sem virða fyrir sér pínu Krists.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons  - Wikimedia Commons
Innblásturinn að krossamyndum Kees kemur frá endurreisnarmálurum eins og Luis de Morales og rússneskum abstraktmálurum eins og Kazimir Malevich.

En verkin eru samt algjörlega abstrakt, svarthvít, krossinn er eins og hreinsaður upp af listamanninum áður en hann er fluttur yfir á myndflötinn. Það eru þrír tímar í þessum verkum, uppsprettan á endurreisninni, innblástur frá tilraunum í rússneskri myndlist í upphafi síðustu aldar og úrvinnsla Kees Visser í dag, listamanns sem maður hefur ekki hingað til tengt við trúarlegt inntak. 

Í viðtalinu hér fyrir ofan má heyra Kees ræða verkin, innblásturinn frá endurreisnarmyndlistinni, trúarleg stef og hvaða máli Ísland hefur skipt fyrir myndlist hans í öll þessi ár. Í innslaginu syngja Talli Scholars verk eftir spænska endurreisnartónskáldið Tomás Luis de Victoria.