
Svartfugl fer langar leiðir utan varptímans
Árið 2013 hófu starfsmenn Náttúrustofu Norðausturlands að setja gagnarita á svartfugla á þremur stöðum á landinu; í Grímsey, á Langanesi og í Látrabjargi. Þetta eru svokallaðir dægurritar sem safna upplýsingum um allar ferðir fuglanna og hvar þeir halda sig hverju sinni.
Þarf að ná merkjunum aftur til að lesa af þeim
Þorkell Lindberg Þórarinsson, forstöðumaður NNA, segir að eftir að fuglinn hafi verið merktur sé nauðsynlegt að ná merkjunum aftur árið eftir til að lesa af þeim. „Og þetta veitir okkur mikilvægar upplýsingar um hvar fuglarnir halda sig utan varptímans," segir Þorkell, en rætt var við hann á Morgunvaktinni á Rás 1.
Veitir áður óþekktar upplýsingar
Til þessa hafi að mestu verið óþekkt hvernig svartfuglinn hagaði sér frá varptíma og fram á vor. Þetta veiti mikilvægar upplýsingar um helstu búsvæði sem fuglinn byggi á afkomu sína á þessum tíma og hvaða áhrif það geti haft á þróun stofnsins. Það sé mjög misjafnt eftir tegundum hvar svartfuglinn heldur sig og sumir ferðist langar leiðir.
Misjafnt eftir tegundum hvar fuglinn heldur sig
„Þetta eru stuttnefja, langvía og álka sem við höfum verið að fylgjast með,“ segir Þorkell Lindberg. „Stuttnefjan fer alveg vestur fyrir Grænland að mestu leyti. Langvían heldur sig meira til við landið, en fer líka austur undir Grænland og alveg lengst suður á Reykjaneshrygg líka. En álkan virðist halda sig að mestu leyti við landið."