Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Svaraði ekki frekar um tengsl við aflandsfélag

27.04.2016 - 16:42
Mynd: RÚV / RÚV
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, vildi ekki svara spurningum um tengsl fjölskyldufyrirtækis Dorritar Moussaieff við aflandsfélag, umfram fyrri svör, þegar fréttamaður spurði hann á Reykjavíkurflugvelli í dag. Forsetinn segist aldrei hafa neitað viðtölum. Það komi að því að hann ræði málið.

Forsetinn var í viðtali á CNN í síðustu viku spurður hvort hann eða Dorrit ættu einhverja aflandsreikninga eða hvort eitthvað ætti eftir að finnast í Panama-skjölunum um hann eða hans fjölskyldu. Forsetinn svaraði afdráttarlaust.

„Nei, nei, nei, nei, nei. Það verður ekki raunin.“

Eftir að greint var frá því í fréttum á mánudag að fyrirtæki fjölskyldu Dorritar í Bretlandi, Moussaieff Jewellers, hefði tengst Tortóla-félaginu Lasca Finance, óskaði fréttastofa eftir viðtali. Forsetaembættið svaraði samdægurs með stuttri orðsendingu.

„Hvorki forseti né Dorrit vita neitt um þetta félag né hafa heyrt af því áður. Faðir Dorritar er látinn og móðir hennar, sem er 86 ára, man ekki eftir neinu slíku félagi.“

Í gær óskaði fréttastofan aftur eftir viðtali. Forsetaembættið svaraði aftur með stuttri orðsendingu.

„Að sinni er engu að bæta við svarið sem þau gáfu í gær.“

Ólafur vildi ekki svara frekari spurningum fréttamanns á Reykjavíkurflugvelli rétt fyrir hádegi, þegar hann var á leið til Vestmannaeyja að afhenda Lagnaverðlaunin á vegum Lagnafélags Íslands. Horfa má á viðtalið hér að ofan.