Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Súrsaðir lambatittlingar í þorrabakkann

09.01.2014 - 22:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Reiknað er með að Íslendingar sporðrenni næstum 200 tonnum af þorramat í ár. Súrmaturinn er vinsælastur og bráðhollur segja kjötiðnaðarmenn. Helsta nýjungin eru súrsaðir lambatittlingar.

Það er meira en hálft ár liðið frá því að matvælaframleiðendur hófu að undirbúa þorramatinn; sjóða, salta, reykja og leggja í súr. Og súrmaturinn er nú tilbúinn ásamt allskonar hefðbundnum þorramat. Lauslega reiknað fara um 170 tonn af þorramat á markað á næstunni og það tekur okkur 2-3 vikur að sporðrenna öllu saman. Og súrmaturinn er vinsælastur enda sagður bráðhollur og tilvalinn eftir allt reykta og saltaða kjötið um jól og áramót.

Eðvald Sveinn Valgarðsson, gæðastjóri Kjarnafæðis, segir að sýran í súrmatnum dragi út saltið sem sé náttúrulega í vörunni og það sem notað sé í uppskriftunum. Þannig að það sé mjög saltlítil vara sem verið sé að neyta núna. Síðan sé í þessu mikið af B-vítamíni og mikið af kalki.

Og alltaf fer nokkuð af þorramat til Íslendinga erlendis. Eðvald Sveinn segir að íslendingafélögin á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum sem óski eftir þessu.

Það er mikil íhaldssemi í framleiðslu á þorramat og unnið eftir eldgömlum uppskriftum. En hér er samt komin nýjung á markaðinn; súrsaðir lambatittlingar. Það voru fréttir af útflutningi á lambatittlingum sem kveiktu þá hugmynd hjá starfsmönnum einnar verslunarkeðjunnar að gera eitthvað úr þessu mjög svo óvenjulega hráefni og selja hér innanlands. Ingvar Már Gíslason, markaðsstjóri Norðlenska, segir að það sé verið að leika sér með þessa gömlu aðferð, súrsunina, og prófa eitthvað nýtt. Það sé alltaf gaman af því.

„Ég er ekkert viss um að þetta muni endilega mokseljast,“ segir Ingvar Már. „En ég hvet fólk til að prófa þetta. Það er alltaf gaman að fikta aðeins í bragðlaukunum.“