Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Sumt of ógeðslegt til að segja upphátt“

31.07.2016 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV
Það blasir við ljót sjón á tjaldsvæðinu á Flúðum nú þegar fólk er tekið að tínast í burtu. Gríðarlegt magn af rusli er á tjaldsvæðinu þrátt fyrir fría ruslapoka og ruslatunnur víða um tjaldsvæðið. Starfsfólk tjaldsvæðisins er langþreytt á sóðaskap gesta. Gestir skilji eftir sig alls konar rusl og sumt sé of ógeðslegt til að segja upphátt.

Bæði lögreglan á Suðurlandi og starfsmenn tjaldsvæðisins á Flúðum tengja sóðaskapinn við unga fólkið sem gistir þar. Verslunarmannahelgin er eina helgin á árinu þar sem fólki undir 23 ára aldri er leyft að gista á tjaldsvæðinu. Þetta sé einnig eina helgin þar sem mikið magn af rusli safnast saman. Starfsmaður á tjaldsvæðinu segir að ýmislegt hafi verið reynt til að sporna við þessu vandamáli. 

„Við reynum eins og við getum að biðja fólk kurteisislega um að tína upp eftir sig. Við bjóðum þeim fría ruslapoka og höfum sett upp nokkrar ruslatunnur. En unga fólkið skilur eftir sig allt. Ég held ég hafi fundið allt sem hægt er að ímynda sér. Buxur, dýnur, stóla, nærföt og sumt svo ógeðslegt að ég get ekki einu sinni sagt það upphátt.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV

Um helgina hafa rúmlega 3000 manns gist á tjaldsvæðinu og fjórir starfsmenn sjá um svæðið á meðan. Starfsmaður á tjaldsvæðinu segir þetta vera sorglega stöðu. 

„Þegar það eru svona margir þá er auðvitað erfiðara fyrir okkur að passa upp á tjaldsvæðið. En ég skil ekki hvernig það er hægt að láta svona. Þetta er þriðja sumarið mitt hérna og þetta kemur mér alltaf jafn mikið á óvart, bæði sóðaskapurinn og framkoma fólks gagnvart okkur. Unga fólkinu virðist vera alveg sama um fallega náttúru þessa lands og sömuleiðis um almenna kurteisi. Þetta er hræðilega sorglegt.“

Mynd með færslu
 Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV
milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV