Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sumt kemur eins og elding í höfuðið í uppvaskinu

Mynd: RÚV / RÚV

Sumt kemur eins og elding í höfuðið í uppvaskinu

22.12.2019 - 14:25

Höfundar

Ljóðskáldið Brynja Hjálmsdóttir var tilnefnd til Fjöruverðlauna og hlaut verðlaun bóksala fyrir fyrstu bók sína sem nefnist Okfruman. Ljóðin eru ný í bland við eldra efni en saman mynda þau eina heild og fylgir lesandi manneskju frá myndun okfrumu í gegnum fyrstu ævistig.

Titillinn á bókinni, Okfruman, er vísun í fyrstu frumuna í nýjum einstaklingi þegar tvær kynfrumur, sem eru tveir helmingar, verða að einni heild. Titillinn kjarnar það sem bókin fjallar um samkvæmt höfundi bókarinnar Brynju Hjálmsdóttur. „Við byrjum alveg á byrjuninni þegar okfruman verður til og fylgjum svo einstaklingnum út í lífið. Þetta er línuleg saga manneskju sem fer í gegnum áföll og fleira,“ segir skáldið við Egil Helgason í samtali þeirra í gróðurhúsi í Vatnsmýrinni, en það svæði er meðal annars til umfjöllunar í bókinni. Hún segir ljóðin koma til sín á mismunandi vegu, sumum þarf hún að hafa fyrir en önnur gera ekkert boð á undan sér. „Sumt kemur þegar maður er að vaska upp eins og elding í höfuðið en annað er meira eins og tæknivinna. Þá hugsa ég: Mig vantar svona ljóð, og bý það til.“

Brynja starfar meðfram skrifum sem bóksali og segir hún að þetta tvennt fari ágætlega saman. „Maður er innan um bækur, með á nótunum með hvað kemur út og nær að lesa mikið,“ segir hún. „Pínu fyndið samt að sjá bókina í búðinni þegar maður er að vinna.“

Hægt er að hlýða á viðtal Egils við Brynju og flutning á ljóði úr bókinni í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Töfrar í barnslegu hræðsluástandi

Bókmenntir

Gleymt atómskáld dregið fram í dagsljósið