Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Sumir smeykir en ekkert tjón

22.10.2012 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Anna María Sigvaldadóttir, sem býr í Grímsey, segir að skjálftarnir hafi fundist vel í eynni en ekkert eignatjón hafi orðið af þeirra völdum.

„Það finnst dáldið mikið suður á eyjunni, á syðstu húsunum en svo er þetta bara misjafnt held ég. Ég er í timburhúsi, við finnum þetta ekki eða mjög lítið, heyrum aðallega drunurnar. Og ég held að það skipti miklu hvort þú sért með timburhús eða á steyptum fleka,“ segir Anna María. Hún segir að eyjaskeggjum standi þó mörgum hverjum ekki á sama og séu sumir smeykir. Ein fjölskylda hafi flutt úr húsi sínu til ættingja þar sem minna ber á skjálftunum.

„Þetta skiptist eiginlega í tvo parta, aðrir segja  að þetta sé bara svona og svo eru sumir sem eru mjög hræddir. Ég held líka að aðallega þeir sem voru hérna þegar skjálftarnir voru hér í kringum 1986,1987,1988, eitthvað svoleiðis, ég held að þeir séu mjög smeykir.“

Viðlagatrygging hefur til þessa fengið eina tilkynningu um tjón vegna jarðskjálftanna úti fyrir Eyjafirði síðustu daga. Samkvæmt upplýsingum frá Viðlagatryggingu er um að ræða óverulegt tjón á lögnum í íbúðarhúsi á Siglufirði.