Sumarhúsið rústir einar

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Sumarhúsið sem brann í landi Kiðjabergs í gærkvöldi er gjörónýtt að sögn slökkviliðsstjóra. Eldsupptök eru ókunn.

Tilkynning um eldinn barst laust fyrir klukkan níu í gærkvöldi og var bústaðurinn þá þegar orðinn alelda. Það var vegfarandi sem tilkynnti um eldinn og var hann á staðnum þegar slökkviliðið kom á vettvang. „Hann greinir viðbragðsaðilum frá því að það sé enginn inni þannig að það er gengið út frá því enda húsið alelda og engu hægt að bjarga ef þannig hefði verið. Eldurinn var búinn að læsa sig í trjágróður á þessari stundu og því snérist slökkvistarfið að því að varna útbreiðslu elds í trjágróðri,“ segir Pétur Pétursson, slökkviliðisstjóri Brunavarna Árnessýslu.

Ekki nokkur leið að bjarga húsinu

Tankbílar frá Selfossi og Flúðum voru sendir á vettvang enda getur verið erfitt að komast í vatn á þessu svæði í miklum snjó og frosti. Fljótlega komst þó slökkviliðið í vatnslind þannig að vatnsskortur hamlaði ekki slökkvistörfum. Pétur segir slökkvistörf hafa gengið vel. „Þegar var búið að ná tökum á að hefta útbreiðslu eldsins í trjágróðrinum snéru menn sér alfarið að því að slökkva eldinn í rústunum má segja, í húsinu sem var svo gott sem brunnið niður. Það brann síðan niður húsið og það var svo sem ekki nokkur leið að bjarga því,“ segir Pétur.

Eldsupptök eru ókunn en lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins.

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Sumarhúsið var alelda þegar slökkvilið bar að garði.
Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi